Tólf látnir eftir flugslys

Tólf manns eru látnir eftir að lítil farþegaflugvél hrapaði til jarðar í Kosta Ríka, en tíu þeirra voru erlendir ferðamenn.

Flugvélin, sem var af gerðinni Cessna 208 Caravan og tilheyrði innanlandsflugfélaginu Nature Air, kom til jarðar í fjalllendi nálægt Kyrrahafsbænum Punta Islita á Guanacaste-skaganum.

Talsmaður öryggisráðuneytis landsins, Carlos Hidalgo, birtir myndir af vettvangi þar sem sjá má brak flugvélarinnar í ljósum logum dreift yfir skógi vaxna jörð.

Fimm farþeganna á farþegalista vélarinnar báru sama eftirnafn sem benda þykir til þess að um fjölskyldu sé að ræða.

Flugvélin tók á loft frá Punta Islita klukkan 10.30 í morgun að staðartíma, eða klukkan 16.30 að íslenskum tíma. Hún átti að lenda á meginflugvelli landsins í höfuðborginni San Jose klukkan 10.55, eða klukkan 16.55 að íslenskum tíma.

Flugvél af sömu gerð.
Flugvél af sömu gerð. Ljósmynd/Shawn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert