Kjarnorkuhnappurinn innan seilingar

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segist vera með kjarnorkuhnapp á skrifborði …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segist vera með kjarnorkuhnapp á skrifborði sínu. AFP

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fullyrðir að hnappur til að koma af stað kjarnorkuárás sé til staðar á skrifborði hans. 

Þetta er meðal þess sem kom fram í áramótaávarpi leiðtogans á gamlárskvöld þar sem hann ræddi meðal annars um kjarnorkuvopnaframleiðslu landsins. „Þetta er raunveruleiki, ekki hótun,“ sagði Kim um kjarnorkuhnappinn og átti við að Bandaríkin væru nú í skotfæri hersins.

„Við verðum að fjöldaframleiða kjarnaodda og eldflaugar og auka hraðann í tilraunum á þeim,“ bætti Kim við. Hann leit einnig yfir liðið ár þar sem sagði það standa upp úr að ríkið hefði náð markmiði sínu að verða fullgilt kjarnorkuveldi.

Kim ræddi einnig samband Norður-Kóreu við nágranna sína í suðri og gaf til kynna að spenna á milli landanna gæti slaknað á nýju ári.

„Árið 2018 er merkilegt bæði fyrir norðrið og suðrið, norðrið fagnar 70 ára afmæli og suðrið hýsir vetrarólympíuleikana,“ sagði Kim, sem leggur til að Norður- og Suður-Kórea auki samstarf sitt á árinu.

Frétt BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert