25 létu lífið í „beygju djöfulsins“

Rútan hrapaði um hundrað metra niður í fjöru eftir árekstur …
Rútan hrapaði um hundrað metra niður í fjöru eftir árekstur við vörubíl í beygju á þjóðveginum. AFP

Að minnsta kosti 25 eru látnir eftir að rúta hrapaði um hundrað metra niður í fjöru skammt fyrir utan Lima, höfuðborg Perú, í dag.

Rútan lenti í árekstri við vörubíl, um 45 kílómetra norðan við borgina, og kastaðist út af veginum við áreksturinn.

Rútan var á leiðinni frá borginni Huacho, sem er um 130 kílómetra norður af Lima og voru 53 farþegar voru í rútunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru fimm slasaðir, auk þeirra 25 sem eru látnir.

Staðurinn þar sem áreksturinn átti sér stað er þekktur sem „beygja djöfulsins“ í daglegu tali, eða Curva del Diablo.

Þyrla hefur flutt björgunarmenn að slysstað á meðan aðrir björgunarmenn hafa notað reipi til að komast að rútunni og farþegum hennar.  

Björgunarsveitarmenn, lögregla og slökkvilið á slysstað.
Björgunarsveitarmenn, lögregla og slökkvilið á slysstað. AFP
Þyrla hefur aðstoðað við störf á vettvangi.
Þyrla hefur aðstoðað við störf á vettvangi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert