Trump: Hrottaleg og spillt stjórnvöld

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósar mótmælendum í Íran fyrir að taka af skarið gegn „hrottalegum og spilltum“ stjórnvöldum landsins. Við sama tilefni notaði Trump tækifærið til að skjóta á fyrirrennara sinn í starfi, Barack Obama. 

„Íbúar Írans eru loksins að mótmæla hrottalegum og spilltum stjórnvöldum,“ skrifaði Trump á Twitter í dag. Í gær kallaði hann eftir stjórnarskiptum í landinu.

„Allir peningarnir sem Obama forseti gaf þeim svo kjánalega hafa farið í hryðjuverk og í þeirra eigin vasa,“ hélt Trump áfram á Twitter í dag. Hann sagði að íbúarnir hefðu lítinn mat, þar geisaði óðaverðbólga og mannréttindi væru virt að vettugi. „Bandaríkin fylgjast með!“

Írönsk stjórnvöld segja að Trump ætti að einbeita sér að svöngu fólki í sínu heimalandi.

Margir túlka orð forsetans á þá lund að hann sé enn og aftur að hóta því að rifta kjarnorkuvopnasamningi sem gerður var milli ríkisstjórna Írans og Bandaríkjanna árið 2015. Fimm önnur ríki skrifuðu undir samkomulagið: Bretland, Kína, Frakkland, Þýskaland og Rússland. 

Mótmæli brutust út í Íran í síðustu viku og hefur Trump ítrekað tjáð sig um framvinduna. Í gær sagði hann írönsku þjóðina þyrsta í frelsi og að tími breytinga væri kominn.

Mótmælin í Íran eru þau fjölmennustu í landinu frá árinu 2009. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert