Saka óskarsverðlaunahafa um ofbeldi

Fjórar konur hafa stigið fram og ásakað leikstjórann og handritshöfundinn …
Fjórar konur hafa stigið fram og ásakað leikstjórann og handritshöfundinn Paul Haggis um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Haggis neitar sök. AFP

Fjórar konur hafa sakað óskarsverðlaunahafann Paul Haggis fyrir kynferðislega áreitni eða ofbeldi.

Þrjár konur stigu fram eftir að fjölmiðlafulltrúi úr kvikmyndageiranum höfðaði einkamál gegn Haggis fyrir nauðgun. Málið var tekið fyrir í New York í gær.

Haggis er þekktastur fyrir að hafa skrifað handritið að kvikmyndinni Crash, sem hlaut óskarinn fyrir bestu myndina árið 2006. Hann samdi einnig handritið að kvikmyndinni Million Dollar Baby og er einnig þekktur fyrir framgöngu sína innan Vísindakirkjunnar fyrir um það bil áratug.

Haggis neitar sök í máli fjölmiðlafulltrúans og segir konuna vera á höttunum eftir peningum.

Konurnar þrjár sem nú hafa bæst í hópinn koma ekki fram undir nafni en AFP-fréttastofan hefur greint frá frásögnum þeirra. Atvikin sem um ræðir áttu sér stað á milli áranna 1996 og 2015.

Ein kvennanna vann með Haggis árið 1996 við gerð sjónvarpsþáttar. Hún lýsir því hvernig hann hafi reynt að kyssa hana áður en hann þvingaði hana til munnmaka og nauðgaði henni.

Önnur kvennanna, sem vildi bera hugmynd um sjónvarpsþátt undir Haggis árið 2008, segir að hún hafi þurft að flýja af skrifstofu hans þegar hann reyndi að kyssa hana.

Þriðja konan, sem kynntist Haggis á kvikmyndahátíð árið 2015, segir að hann hafi misnotað hana þegar hann þröngvaði sér upp að henni og reyndi að kyssa hana.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert