Konur meðal áhorfenda á knattspyrnuleik

Það verða ekki bara karlar í stúkunni á föstudag.
Það verða ekki bara karlar í stúkunni á föstudag. AFP

Konur í Sádi-Arabíu munu á föstudag í fyrsta skipti geta verið á meðal áhorfenda á knattspyrnuleik þar í landi en ríkisstjórn landsins hefur greint frá þessu.

„Fyrsti leikurinn sem konur mega horfa á verður viðureign Al-Ahli og Al-Batin, föstudaginn 12. janúar,“ kom fram í tilkynningu frá upplýsingamálaráðuneyti Sádi-Arabíu í dag.

Þar kom einnig fram að konur gætu mætt á annan leik á laugardaginn og þriðja leikinn 18. janúar. 

Konur í Sádi-Arabíu sæta mikilli mismunun. Stutt er síðan ákveðið var að þær mættu keyra á þessu ári en strangar reglur gilda um aðgreiningu kynjanna á opinberum stöðum.

Stjórnvöld í landinu hleyptu konum inn á íþrótta­leik­vang í fyrsta sinn til að taka þátt í þjóðhátíðar­degi lands­ins með fjöl­skyld­um sín­um í september í fyrra.

Mohammed bin Salm­an krón­prins er sagður nú­tíma­legri og ekki jafn íhalds­sam­ur og faðir hans, Salm­an kon­ung­ur, en krónprinsinn reynir að nútímavæða landið að einhverju leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert