„Karlar mega reyna við konur“

Catherine Deneuve.
Catherine Deneuve. AFP

Franska leikkonan Catherine Deneuve er ein rúmlega 100 franskra kvenna sem rita undir opið bréf þar sem þær gagnrýna nýja hreintrúarstefnu sem sé að ryðja sér til rúms í kjölfar hneykslismála tengdra kynferðislegri áreitni. Hún segir að karlar megi reyna við konur á sama tíma og kynferðislegt ofbeldi sé glæpur. 

Konurnar sem skrifa undir bréfið eru rithöfundar, listamenn og fræðimenn. Þær tala um nornaveiðar sem geti ógnað kynferðislegu frelsi fólks. Bréfið er ritað í kjölfar umræðu um kynferðisbrot Hollywood-kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins.

„Nauðgun er glæpur,“ segja þær en bæta við að það að reyna að tæla einhvern, hvort sem það er gert ítrekað eða ekki, sé ekki glæpur, segir í bréfinu sem er birt í Le Monde. 

Auk Deneuve skrifar rithöfundurinn Catherine Millet undir, höfundur ævisögunnar um kynlíf Catherine M. (La Vie Sexuelle de Catherine M.) sem kom út árið 2002 og vakti gríðarlega athygli.

Þær segja að karlar hafi verið neyddir til þess að láta af störfum fyrir eitthvað sem stundum er ekki meira en að snerta hné eða stela kossi. Karlar hafi verið dregnir ofan í svaðið fyrir það að tala um áleitna hluti í vinnutengdum kvöldverðarboðum eða fyrir að hafa sent kynferðisleg skilaboð til kvenna sem ekki hafa á þeim áhuga.

Í bréfinu er ráðist á herferðir eins og #MeToo og frönsku útgáfuna #Balancetonporc (komið ykkur út svínin ykkar í lauslegri þýðingu) og segja konurnar að þetta sé ný útgáfa hreintrúarstefnu. Að sjálfsögðu sé nauðsynlegt að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum, ekki síst á vinnumarkaði, en baráttan hafi breyst í nornaveiðar.

„Barátta sem hófst með því að veita konum frelsi til að tjá sig hefur í dag snúist upp í andstöðu sína. Við hræðum fólk til þess að tala eftir bókinni og þöggum niður í þeim sem ekki falla í kramið. Þær konur sem neita því að vera með eru álitnar samsekar eða svikarar,“ segir meðal annars í bréfinu. 

Ef einhver snertir líkama konu, jafnvel óvart, á það ekki endilega að þýða að viðkomandi brjóti gegn sæmd hennar og á alls ekki að gera hana að fórnarlambi. Konur sem voru nægjanlega sterkar til þess að krefjast sömu launa og karlar urðu ekki fyrir áfalli ævilangt þrátt fyrir að einhverjir gældu við þær í lestinni. Jafnvel þrátt fyrir að slíkt sé saknæmt.

Deneuve, 74 ára, er ein þekktasta leikkona Frakka. Eftir að bréfið birtist í Le Monde í gær hefur það ferðast hratt um samfélagsmiðla í Frakklandi, einkum Twitter. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikkonan tekur undir gagnrýni á #MeToo-herferðina. Í fyrra sagðist hún ekki telja að þetta væri rétta leiðin til þess að breyta hlutunum. „Eftir að hafa öskrað á svínið endar þetta með því að við öskrum og krefjumst þess að hórurnar stígi fram.“ 

Í mars vakti hún mikla reiði með því að standa þétt við bakið á fransk/pólska leikstjóranum Roman Polanski sem var sakaður um að hafa nauðgað 13 ára stúlku í Bandaríkjunum árið 1977. Á sama tíma og fórnarlamb hans, Samantha Geimer, hefur óskað eftir því að málið gegn honum verði fellt niður svo hún geti lifað lífinu áfram sagði Deneuve í viðtali við franska sjónvarpið að sér hefði alltaf fundist orðið nauðgun ofmetið við þessar aðstæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert