Trump klár í viðræður við N-Kóreu

Donald Trump Bandaríkjaforseti er klár í viðræður við Kim Jong-un, …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er klár í viðræður við Kim Jong-un, norðurkóreska leiðtogann. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er tilbúinn í viðræður milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Hann ætlar þó ekki að slaka á þvingunum gegn norðurkóreskum stjórnvöldum vegna kjarnorkustefnu Norður-Kóreu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Í símtali milli Trumps og Moon Jae-In, forseta Suður-Kóreu, greindi Trump frá því að hann væri tilbúinn að hefja viðræður við norðurkóresk stjórnvöld þegar „tími og aðstæður væru réttar,“ segir í frétt AFP-fréttaveitunnar um málið.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins sagði í tilkynningu til fjölmiðla að leiðtogarnir tveir hefðu rætt saman í síma um mikilvægi þess að slaka ekki á núverandi stefnu gagnvart Norður-Kóreu. Moon greindi Trump frá viðræðum Suðurkóreumanna við norðurkóreska sendinefnd, en í kjölfar viðræðnanna ákváðu norðurkóresk stjórnvöld að senda fulltrúa á vetrarólympíuleikana sem haldnir verða í Pyeongchang í Suður-Kóreu í næsta mánuði.

Þá greindi Trump Moon frá því að Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna yrði viðstaddur vetrarólympíuleikana fyrir hönd Bandaríkjanna. „Pence verður viðstaddur til að tryggja sterka viðveru Bandaríkjanna við Kóreuskagann og senda skýr skilaboð til norðurkóreskra stjórnvalda,“ sagði Trump.

Norðurkóreumenn sniðgengu sumarólympíuleikana í Seúl árið 1988, en ætla að senda fjölda fulltrúa á vetrarólympíuleikana í næsta mánuði, segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert