Heita umbótum eftir mikil mótmæli

Mikil mótmæli hafa verið í Túnis undanfarna daga og hafa …
Mikil mótmæli hafa verið í Túnis undanfarna daga og hafa rúmlega 800 manns verið handteknir. Hér lýstur öryggislögreglu saman við mótmælendur. AFP

Stjórnvöld í Túnis hafa tilkynnt um umbætur á félagslega kerfinu í landinu í kjölfar mikilla mótmæla undanfarið. Sjö ár eru nú frá því að fyrrverandi forseta landsins, Zine al-Abidine Ben Ali, var steypt af stóli í miklum mótmælum sem voru upphaf arabíska vorsins svonefnda. Rúmlega 800 mótmælendur hafa verið handteknir undanfarna daga.

BBC segir ríkisstjórn Túnis hafa haldið  neyðarfundi í kjölfar mótmælanna og hefur stjórnin nú lagt fyrir þingið frumvarp um umbætur á heilbrigðiskerfinu og húsnæðiskerfinu, sem og um aukna aðstoð við þá efnaminnstu.

Mótmælin hófust í byrjun þessa mánaðar eftir að stjórnvöld greindu frá hækkun ýmissa gjalda og nýjum skattaáformum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði áður tilkynnt stjórnvöldum í Túnis í desember að ríkið yrði að grípa samstundis til aðgerða til að draga úr fjárlagahalla sínum.

Ríkisstjórnum undanfarinna ára hefur ekki tekist að draga úr atvinnuleysi eða fátækt í landinu og ferðamannaiðnaðurinn í landinu hefur átt erfitt uppdráttar eftir hryðjuverkaárásir, sem beindust gegn útlendingum í Túnis árið 2015 og kostuðu tugi manns lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert