Sænski herinn gegn glæpagengjum?

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven. AFP

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefán Löfven, útilokar ekki að kalla út sænska herinn til þess að berjast gegn glæpagengjum í landinu. Þetta kemur fram í frétt Reuters en vaxandi ofbeldisverk í Svíþjóð á undanförnum árum valda íbúum landsins miklum áhyggjum.

Fréttastofan TT hefur eftir Löfven að það væri ekki fyrsti valkostur hans að kalla úr herinn til þess að takast á við vandann, sem margir óttast að lögreglan ráði ekki við, en hann væri engu að síður reiðubúinn að grípa til allra ráða til þess að kveða niður ofbeldið. 

Löfven var spurður út í mögulega aðkomu hersins í kjölfar umræðu í sænska þinginu þar sem Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata sem berjast fyrir harðri innflytjendastefnu, kallaði eftir því að lýst yrði yfir stríði á hendur skipulagðri glæpastarfsemi.

Lagði Åkesson til að sænski herinn yrði kallaður út í þeim tilgangi að berjast gegn glæpagengjum. Fjöldi morða árið 2016, en nýjustu tölur eru frá því ári voru 106, en hins vegar urðu um 300 skotárásir í landinu. Aðallega í tengslum við glæpagengi.

Ríkisstjórn Löfvens, sem er minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokks hans og Græningja, hefur heitið því að leggja meiri fjármuni í löggæslu fram til ársins 2020. Enn fremur að herða refsingar vegna skotárása og auðvelda lögreglu að hlera síma og tölvupóst.

„Fólk er skotið til bana á pizzastöðum, fólk er drepið með handsprengjum sem það finnur á götunni,“ er haft eftir Åkesson. „Þetta er hin nýja Svíþjóð; hin nýja, spennandi, kraftmikla, fjölmenningarlega paradís sem svo margir á þessu þingi hafa barist fyrir svo lengi.“

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í haust en talið er að löggæslumál verði áberandi í kosningabaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert