Kynferðisbrot útbreidd innan SÞ

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa leyft kynferðislegu ofbeldi og áreitni að vaxa og dafna á skrifstofum sínum víða um heim, segir í umfjöllun Guardian um málið í dag. Þar kemur fram að níðingarnir hafi fengið að brjóta gegn fórnarlömbum sínum afskiptalaust.

Tugir af núverandi og fyrrverandi starfsmönnum SÞ lýsa við breska blaðið þöggun sem ríki innan samtakanna og kerfi sem er andsnúið fórnarlömbum. Af þeim starfsmönnum sem Guardian tók viðtal við greindu 15 frá því að hafa annað hvort orðið fyrir eða greint frá kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á undanförnum fimm árum. Allt frá munnlegri áreitni til nauðgunar.

Sjö kvennanna hafa tilkynnt um ofbeldið með formlegum hætti en afar sjaldgæft er að fórnarlömb leggi í það af ótta við að missa starfið eða vantrú á að nokkuð verði að gert.

„Ef þú tilkynnir þá er ferill þinn nánast búinn, sérstaklega ef þú ert ráðgjafi,“ segir einn ráðgjafanna í viðtali við Guardian. Hún segist hafa orðið fyrir áreitni af hálfu yfirmanns síns þegar hún starfaði fyrir matvælaáætlun SÞ. 

Sameinuðu þjóðirnar taka undir áhyggjur af því að ekki sé tilkynnt um slíkt ofbeldi og framkvæmdastjóri SÞ, António Guterres, segir það í forgang í starfi sínu að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og að slíkt verði undir engum kringumstæðum liðið.

Guardian ræddi við starfsmenn SÞ í meira en tíu löndum og þrjár konur sögðust hafa neyðst til þess að hætta í starfi sínu vegna mála sem þessara á síðasta ári. Á sama tíma sitji þeir sem beittu þær kynferðislegu ofbeldi eða áreitni enn í sínu starfi óáreittir. Meðal þeirra er mjög háttsettur yfirmaður SÞ.

Ein þeirra segist hafa verið nauðgað af yfirmanni sínum þegar þau störfuðu á vettvangi. Þrátt fyrir að hafa sýnt fram á gögn frá lækni og vitnisburð þá hafi innanhússrannsókn leitt í ljós að ekki væru nægar sannanir fyrir ásökunum hennar. Því hafi hún neyðst til þess að láta af störfum auk þess að dvelja á sjúkrahúsi í nokkra mánuði vegna áfallastreituröskunar eftir ofbeldið sem hún varð fyrir. 

Hér er hægt að lesa grein Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert