Formúlufraukur heyra sögunni til

Formúlufraukur stilla sér upp á rauðum dregli í ítölsku formúlunni, …
Formúlufraukur stilla sér upp á rauðum dregli í ítölsku formúlunni, líklega í síðasta sinn. AFP

Formúlufraukur (e. Grid girls) heyra nú sögunni til í Formúlu 1 kappaksturskeppninni. Reglur þess efnis tóku gildi um áramótin og því verða engar fáklæddar formúlufraukur á hliðarlínunni þegar keppni í Formúlu 1 hefst á ný í mars.

Sean Bratches, markaðsstjóri Formúlu 1, segir í samtali við BBC að breytingin hafi verið gerð í takt við tíðarandann og „í samræmingu við þá framtíðarsýn sem þessi frábæra íþrótt vill stefna að.“  

„Þó svo að formúlufraukur hafi verið meginuppistaðan við verðlaunaafhendingar í Formúlu 1 í áratugi finnst okkur að þessi siður sé ekki í samræmi við gildi okkar og brýtur augljóslega gegn viðhorfum í nútímasamfélagi,“ segir Bratches.

Formúlufraukurnar hafa gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina og í flestum tilvikum er um að ræða fyrirsætur. Þær klæðast gjarnan fatnaði frá auglýsendum og halda á regnhlífum eða skiltum með nafni og númeri ökumannsins. Þá fylgja þær verðlaunahöfum á pall.

Formúlufraukur hafa meðal annars fylgt vinningshöfum á verðlaunapall.
Formúlufraukur hafa meðal annars fylgt vinningshöfum á verðlaunapall. AFP

Gagnrýni á tilvist formúlufraukanna hefur aukist mikið á síðustu árum, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og hefur hún verið sögð gamaldags og lítillækkandi fyrir konur.

Samtökin Women´s Sport Trust, sem vilja auka sýnileika og áhrif kvenna í íþróttum, fagna ákvörðuninni og hvetja forsvarsmenn fleiri íþróttagreina, líkt og hnefaleika og hjólreiða, að gera slíkt hið sama.

En hvað með formúlufraukurnar sjálfar? Charlotte Gash, formúlufrauka í hlutastarfi, segir ákvörðunina vera algjöra andstyggð. „Þetta er óásættanlegt og ég fyllist viðbjóði yfir því að Formúla 1 hafi látið undan kröfum minnihlutans um pólitískan réttrúnað.“

Caroline Hall, önnur formúlufrauka, segir að það hafi verið of stórt skref að láta formúlufraukurnar hverfa alveg af kappakstursbrautinni. „Ég held að það hefði verið möguleiki að færa hlutverkið meira í átt að nútímanum.“

Gagnrýni á tilvist formúlufraukanna hefur aukist mikið á síðustu árum, …
Gagnrýni á tilvist formúlufraukanna hefur aukist mikið á síðustu árum, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og hefur verið sögð gamaldags og lítillækkandi fyrir konur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert