Rasmussen og „kvótakóngarnir“

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen.
Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen. AFP

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, sagði við umræður á danska þinginu í gær að hann hefði gefið réttar og fullnægjandi skýringar á tengslum hans við svokallaða „kvótakónga“ í dönskum sjávarútvegi.

Rasmussen neitaði því að tengsl hans við stór sjávarútvegsfyrirtæki í jóska bænum Thybøron hefðu haft áhrif á pólitískar ákvarðanir hans. Hann hafi aldrei neitað tengslum sínum við kvótakóngana en hann hafi jafnframt alltaf sagt að þau hefðu engin áhrif á það hvernig hann hugsi.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar (Rigsrevisionen) sem gefin var út í ágúst kom fram að nokkrir ráðherrar tengdust sjávarútvegsfyrirtækjum. Þar á meðal forsætisráðherrann. Margir kvótaeigendur hafa verið að auka við kvóta sinn og segir í skýrslunni að mistök hafi verið gerð við lagasetninguna varðandi kvótasetningu sem valdi þessu. Það er að ekki hafi verið sett takmörk á kvótaeign.

Rasmussen sagði á þingi í gær að hann hafi væntanlega hitt marga sjómenn með ólíka hagsmuni í gegnum tíðina en þetta hafi ekki haft nein áhrif á störf hans.

Ástæða umræðunnar á þingi er frétt Ekstra Bladet um að forsætisráðherra hafi verið boðin dvöl í glæsihýsi að verðmæti 10 þúsund danskar krónur, tæpar 170 þúsund íslenskar krónur, af helsta „kvótakóngi“ Thybøron, John-Anker Hametner Larsen.

Larsen er jafnframt einn þeirra sem hefur lagt sitt af mörkum til góðgerðarsamtakanna Løkkefonden, sem Rasmussen stofnaði ásamt konu sinni, Solrun Løkke Rasmussen. Alls lagði Larsen samtökunum til 190 þúsund danskar krónur, um 2,3 milljónir króna.

Umfjöllun Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert