Hver var dánarorsök Natalie Wood?

Natalie Wood og eiginmaður hennar Robert Wagner.
Natalie Wood og eiginmaður hennar Robert Wagner. AFP

Talið er að andlát leikkonunnar Natalie Wood hafi borið að með grunsamlegum hætti, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglustjóraembættinu í Los Angeles. Leikkonan lést árið 1981 og var dánarorsökin sögð drukknun. Nú hafa stigið fram ný vitni í málinu og hefur eiginmaður hennar, Robert Wagner, réttarstöðu grunaðs manns.

Í tæpa fjóra áratugi hafa menn velt fyrir sér dauða Wood og ýmsar kenningar á lofti. Leik­kon­an drukknaði í nóv­em­ber árið 1981 er hún var í báts­ferð ásamt eig­in­mann­in­um og sjón­varps­stjörn­unni Robert Wagner og leik­ar­an­um Christoph­er Wal­ken.

Hún hafði setið að sumbli ásamt Wagner, Walken og skipstjóra snekkjunnar. Morguninn eftir fannst lík hennar á floti við Catalina-eyjar, fyrir utan Suður-Kaliforníu. 

Wood var barna­stjarna í Hollywood og lék m.a. í Miracle on 34th Street. Hún fékk til­nefn­ingu til Óskar­sverðlauna fyr­ir hlut­verk sín í mynd­un­um Re­bel Wit­hout a Cause, Splendor in the Grass og Love with the Proper Stran­ger. Hún var 43 ára er hún lést.
Niðurstaða rannsóknarinnar var að hún hefði látist af slysförum en málið var tekið upp á ný árið 2011. Þar var rannsakað hvort Wagner, sem er 87 ára í dag, eða einhver annar hafi átt þátt í andláti hennar. Var þetta gert eftir að skipstjórinn upplýsti um að hann hafi heyrt hávært rifrildi frá káetu þeirra hjóna um nóttina. Á þeim tíma var dánarvottorðinu breytt og dánarorsökin ekki lengur skráð sem einungis drukknun heldur var búið að bæta við og aðrir óþekktir þættir tilteknir.

Mynd af Robert Wagner frá árinu 2012.
Mynd af Robert Wagner frá árinu 2012. AFP

Í yfirlýsingu frá skrifstofu lögreglustjóra í gær segir að ný vitni, sem rætt hefur verið við frá því málið var tekið upp að nýju, hafi upplýst um aðra sviðsmynd um borð í bátnum þessa nótt en áður hefur komið fram.

Í frétt New York Times kemur fram að þeir sem rannsaki málið telji að Wagner hafi ekki tjáð lögreglu alla málavöxtu á sínum tíma. 

Wagner hafi ekki verið yfirheyrður frá því málið var tekið upp að nýju árið 2011 en árið 2013 var greint frá því að lögreglan hefði reynt í að minnsta kosti tíu skipti að fá Wagner til að ræða við þá án árangurs.

Wagner neitar allri aðild að dauða Wood og hann hefur ekki verið kærður. Í endurminningum hans sem komu út árið 2008 er haft eftir honum að hann og Walker hafi rifist þetta kvöld. Walken hafi farið að sofa en hann sjálfur verið lengur á fótum. Þegar hann fór í háttinn hafi hann uppgötvað að kona hans og gúmmítuðra, sem hafði verið föst við snekkjuna, voru horfnar.

Natalie Wood í París árið 1964.
Natalie Wood í París árið 1964. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert