„Þín sök að ég er graður“

Málið var tekið fyrir héraðsdóm í Ósló tveimur og hálfu …
Málið var tekið fyrir héraðsdóm í Ósló tveimur og hálfu ári eftir að árásin átti sér stað. AFP

Karlkyns ljósmyndari í Noregi hefur verið dæmdur fyrir að beita konu, sem hann var að mynda vegna brúðkaupsafmælis hennar og eiginmannsins, kynferðislegu ofbeldi. Konan var á nærfötum í myndatökunni og sagði ljósmyndarinn, sem æstist kynferðislega: „Það er þér að kenna að ég er graður.“

Ljósmyndarinn segist hafa runnið til og að það óhapp hafi orðið til þess að hann endaði með hönd sína á kynfærum hennar. Konan hefur allt aðra sögu að segja.

Í frétt norska ríkisútvarpsins um málið segir að ljósmyndari sé meira en helmingi eldri en konan sem kom til hans í myndatöku sumarið 2015. Hún vildi færa eiginmanni sínum munúðarfullar myndir af sér í brúðkaupsafmælisgjöf og lá því á nærfötunum á dýnu í ljósmyndastúdíóinu.

Bað konuna um að bera á sig olíu

Er ljósmyndarinn hafði tekið myndir og skoðað þær í vélinni sagði hann að lýsingin væri ekki nógu góð og bað konuna að bera olíu á leggi sína. Enn fannst honum myndirnar ekki nógu góðar og bauðst til að aðstoða konuna. Konan segist hafa samþykkt það en bætt við að hann yrði að fara varlega. Með því átti hún við að hún vildi ekki að hann snerti viðkvæm svæði líkama hennar, útskýrði konan fyrir dómi.

Ljósmyndaranum og konuna greindi svo á um hvað gerðist í framhaldinu. Hann segist hafa runnið til á gólfinu og óvart lent með höndina á kynfærum hennar. Konan hafnar því að um óhapp hafi verið að ræða. Hún segist hafa gefið það skýrt til kynna að snertingin væri gegn hennar vilja.

Konan segist hafa orðið hrædd og að hún hafi helst viljað taka fötin sín og hlaupa út. Hún hafi hins vegar ekki þorað að gera það þar sem hún var hrædd við að hún kæmist ekki út og óttaðist að maðurinn myndi ráðast á sig.

Traust brotið

Konan vildi kæra málið en var hrædd um að það myndi engu skila þar sem orð væri á móti orði. Vinur hennar hvatti hana til að kæra og ákvað hún loks að gera það.

Um hálfu ári síðar var ljósmyndarinn yfirheyrður. Í fyrstu viðurkenndi hann hvað hafði gerst. Reynt var að komast að dómssátt en það tókst ekki og neitaði ljósmyndarinn í kjölfarið sök. Það var svo um tveimur og hálfu ári eftir árásina að málið fór fyrir héraðsdómsstól í Ósló. 

Maðurinn var sakfelldur. Sagði í niðurstöðu dómsins að ljósmyndarinn hefði verið í vinnu sinni er árásin átti sér stað og að ekkert hefði bent til þess að konan vildi að hann nálgaðist hana með þeim hætti sem hann gerði.

„Við álítum þetta alvarlegt mál. Þarna var traust á milli fagaðila og viðskiptavinar brotið,“ segir saksóknari lögreglunnar í Ósló um niðurstöðuna. Maðurinn hefur einnig verið sakaður um að hafa tekið mynd af fjórtán ára stúlku berri að ofan. 

Ljósmyndarinn var dæmdur í 30 daga fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára. Brjóti hann ekki af sér á tímabilinu mun hann ekki þurfa að afplána dóminn. 

Hann hefur ekki ákveðið hvort hann muni áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert