Sprengdu fæðingarstofu í loft upp

Barn fær með ferð á bráðabirgða heilsugæslustöð í Kafr Batna …
Barn fær með ferð á bráðabirgða heilsugæslustöð í Kafr Batna í austurhluta Ghouta-héraðs. Stjórnarherinn beindi árásum sínum m.a. að slíkum stöðum í gær. AFP

Að minnsta kosti tuttugu börn eru meðal þeirra 100 óbreyttu borgara sem féllu í loftárásum Sýrlandshers í austanverðu Ghouta-héraði í gær. Herinn lét sprengjum rigna yfir svæðið sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna og hefur verið í herkví stjórnvalda árum saman. Verið er að undirbúa áhlaup hersins á jörðu niðri, að því er fram kemur í frétt BBC um málið.

Sameinuðu þjóðirnar segja að ástandið sé nú orðið stjórnlaust. Stofnunin hefur hvatt til vopnahlés á svæðinu svo hægt sé að forða almennum borgurum úr lífshættu. Talið er að um 400 þúsund manns hafist við á svæðinu og komist hvergi vegna ástandsins. 

Sært barn fær aðhlynningu á bráðabirgðaheilsugæslustöð í Douma í Austur-Ghouta.
Sært barn fær aðhlynningu á bráðabirgðaheilsugæslustöð í Douma í Austur-Ghouta. AFP

Austur-Ghouta er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi sem barist hafa frá árinu 2011 við stjórnarher landsins og vilja koma forsetanum Bashar al-Assad frá völdum.

Í fréttaskýringu Linu Sinjab, sem er fréttaritari BBC í Miðausturlöndum segir að árásirnar nú, sem staðið hafa yfir nær stöðugt frá því á sunnudag, séu ólíkar öðrum árásum stjórnarhersins að því leyti að skotmörkin séu byggingar þar sem mat er mögulega að finna. Þannig hafa bakarí verið sprengd í loft upp og vöruskemmur. Árásunum er þannig beint sérstaklega gegn almennum borgurum til að beita uppreisnarmennina þrýstingi.

Dagurinn í gær er einn sá versti í landinu frá því stríðið braust út. Óttast fólk að það sama eigi eftir að gerast á þessu svæði og átti sér stað í borginniAleppo. Starfsmenn hjálparstofnana segja að samgönguæða hafi verið eyðilagðar í því skyni að koma í veg fyrir að hægt sé koma neyðarbirgðum inn á svæðið og til að hefta för sjúkrabíla.

Björgunarmaður heldur á særðu ungbarni eftir loftárás í bænum Hamouria.
Björgunarmaður heldur á særðu ungbarni eftir loftárás í bænum Hamouria. AFP

Í gær urðu fjórar bráðabirgða heilsugæslustöðvar fyrir sprengjuárásum og því ljóst að tala látinna á eftir að hækka. Fæðingarstofa var m.a. sprengd í loft upp.

Uppreisnarmenn hafa svarað fyrir sig með eldflaugaárásum á höfuðborgina Damaskus. 

Líkt og svo oft áður í stríðinu í Sýrlandi er erfitt að meta umfang mannfallsins í árásunum í gær. Talan 100 er fengin frá bresku samtökunumSyrianObservatory sem fylgjast vel með gangi mála og safna upplýsingum bæði frá íbúum og stríðandi fylkingum. Á myndbandi sem birt var í gær og er tekið í bænumHamouria í Austur-Ghouta mátti sjá fólk hlaupa í ofboði frá húsum sem voru sprengd. 

Börn í Douma sem urðu fyrir loftárás bíða á heilsugæslustöð.
Börn í Douma sem urðu fyrir loftárás bíða á heilsugæslustöð. AFP

Lengi hefur verið varað við því að ástandið í Austur-Ghouta gæti versnað. Með samkomulagi milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins í fyrra tókst að koma nokkrum tugum manna sem þurftu á læknishjálp að halda frá svæðinu. Mánuðum saman hefur reynst erfitt og stundum ómögulegt að koma lyfjum og mat til fólksins sem er þarna innlyksa.

Í mars verða sjö ár liðin frá því að stríðið í Sýrlandi braust út. Hundruð þúsunda manna hafa fallið á þeim tíma og um fimm milljónir hafa neyðst til að flýja landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert