Tugir barna látist í árásunum

Lík almennra borgara sem féllu í loftárásum Sýrlandshers á bæinn …
Lík almennra borgara sem féllu í loftárásum Sýrlandshers á bæinn k-Hamouria í austurhluta Ghouta-héraðs í gær. AFP

Að minnsta kosti 45 féllu í loftárásum Sýrlandshers í austurhluta Ghouta-héraðs í dag. Að minnsta kosti 127 almennir borgarar, þar af 39 börn, létust í árásum hersins í gær. Ghouta-hérað hefur verið í herkví frá árinu 2013. Svæðið er eitt síðasta vígi uppreisnarmanna í landinu. 

Í dag hófst þriðji dagur harðra loftárása á svæðinu og eru skotmörkin m.a. vegir, heilsugæslustöðvar og byggingar þar sem matvæli eru geymd s.s. vöruhús og bakarí. 

Í árásunum í morgun létust að minnsta kosti tólf börn, að því er bresku mannréttinda- og eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights telja. 

Uppreisnarmenn andvígir forsetanum Bashar al-Assad tóku völdin í austanverðu Ghouta-héraði árið 2012. Forsetanum er hins vegar mikið í mun að ná því aftur undir sína stjórn. Í kjölfar lofthernaðar síðustu daga stendur nú til að hefja landhernað af krafti að því er dagblað hliðhollt forsetanum fullyrðir í dag. 

Reykur stígur til himins frá bænum Mesraba í austuhluta Ghouta-héraðs …
Reykur stígur til himins frá bænum Mesraba í austuhluta Ghouta-héraðs eftir árásir stjórnarhersins. AFP

Uppreisnarmenn á svæðinu hafa oftsinnis skotið eldflaugum að íbúahverfum í höfuðborginni Damaskus og þannig svarað loftárásum hersins. Í gær létust að minnsta kosti tveir og þrettán særðust í slíkum árásum uppreisnarmannanna. 

„Það er áríðandi að stöðva þessar glórulausu mannlegu þjáningar nú þegar. Hætta verður þegar í stað að gera almenna borgara og innviði að skotmörkum,“ segir Panos Moumtzis, svæðisstjóri mannúðarverkefna Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert