1.000 ára beinagrindur undir Ráðhústorgi

Frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.
Frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fornleifafræðingar við Minjasafn Kaupmannahafnar hafa síðustu vikur grafið upp tuttugu beinagrindur sem fundust undir Ráðhústorginu í miðborg Kaupmannahafnar. Gröfturinn hefur farið fram í leyni, en fornleifafræðingarnir hafa athafnað sig í skjóli tveggja stórra tjalda síðan í desember.

„Við höfum fundið það sem við teljum að séu leifar fyrstu Kaupmannahafnarbúanna, sem eru þúsund ára gamlar og hafa legið á um eins metra dýpi undir malbikinu á Ráðhústorginu,“ segir Jane Jark Jensen, fornleifafræðingur við Minjasafnið í Kaupmannahöfn, í samtali við danska ríkisútvarpið.

Grefur undan mýtunni um Absalon

Stofnun Kaupmannahafnar er jafnan miðuð við við árið 1167 er Absalon, biskup Hróarskeldu, reisti virki á eyjunni Slotsholmen, á því svæði sem Kristjánsborg stendur í dag í miðri Kaupmannahöfn. Hinar nýfundnu beinagrindur eru taldar um hundrað árum eldri.

Verkefninu var haldið leyndu fram yfir áramót af ótta við að óboðnir gestir myndu hnýsast í gröfunum enda Ráðhústorgið með fjölförnustu stöðum í borginni.

Kristjánsborgarhöll stendur á uppfylltu eyjunni Slotsholmen, þar sem Absalon biskup …
Kristjánsborgarhöll stendur á uppfylltu eyjunni Slotsholmen, þar sem Absalon biskup á að hafa reist virki sitt og stofnað með því Kaupmannahöfn. AFP

Jane Jark Jensen er ekki í nokkrum vafa um að fundurinn hafi mikil áhrif á sögu Kaupmannahafnar. „Þetta er tía, á skalanum einn til tíu,“ segir hún og bætir við að fundurinn geti gefið miklar vísbendingar um hvernig miðaldabyggð á Kaupmannahafnarsvæðinu var háttað. Þá segir hún að fundurinn grafi enn undan mýtunni um stofnun Absalon.

Beinagrindirnar komu í leitirnar er vatnsveitufyrirtæki hugðist endurnýja lagnir undir torginu. Flestar beinagrindurnar hafa nú verið fluttar til rannsóknar á heilbrigðisvísindasvið Kaupmannahafnarháskóla en þaðan verða þær fluttar á Danska náttúruminjasafnið.

Gröfturinn daglegt brauð í Køben

Kaupmannahafnarbúar ættu annars ekki að kippa sér upp við gröft á Ráðhústorginu en síðustu misseri hafa stór svæði í miðborginni, þar á meðal hluti Ráðhústorgsins, verið girt af vegna stækkunar jarðlestakerfis borgarinnar, Metro.

Til stendur að opna tvær nýjar línur, sem nefnast Borgarhringurinn  (City-ringen) sumarið 2019. Munu þær meðal annars tengja Ráðhústorgið við Kóngsins Nýjatorg, Norðurbrú og Aðallestarstöðina (Hovedbanegården) sem hingað til hefur ekki verið hluti jarðlestakerfisins.

Konunglega leikhúsið við Nýjatorg nýtur sín töluvert betur á myndinni …
Konunglega leikhúsið við Nýjatorg nýtur sín töluvert betur á myndinni en það gerir þessa dagana, í skugga afgirts vinnusvæðis þar sem unnið er að lagningu nýrra jarðlestarteina. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert