Faðir drengsins í ferðatöskunni fær sekt

Sonur Adou Ouattara var átta ára er reynt var að …
Sonur Adou Ouattara var átta ára er reynt var að smygla honum til Spánar. Hér má sjá mynd sem tekin var af töskunni sem hann var falinn í. AFP

Karlmaður frá Fílabeinsströndinni sem á tíu ára gamlan son sem reynt var að smygla til Spánar í ferðatösku fyrir tveimur árum verður ekki dæmdur til fangelsisvistar.

Saksóknarar höfðu í upphafi farið fram á að Ali Ouattara færi í fangelsi fyrir smyglið. Hins vegar fundu þeir engar sannanir fyrir því að faðirinn hefði vitað að smygla ætti syni hans í ferðatösku og var hann því aðeins dæmdur til sektargreiðslu.

„Hvorki faðir minn né ég vissum að það ætti að setja mig í ferðatösku,“ sagði drengurinn við dómara málsins.

Ouattara sat í varðhaldi í mánuð. Hann segir að sér hafi verið sagt að syni hans yrði smyglað til Spánar í bíl.

Drengurinn segir að erfitt hafi verið að anda í ferðatöskunni en í hana var hann settur til að smygla honum frá Marokkó og til Ceuta sem tilheyrir Spáni.

Landamæraverðir stöðvuðu för konu sem dró á eftir sér þunga ferðatösku. Er taskan var gegnumlýst sást að í henni var barn í fósturstellingu.

Drengurinn býr nú ásamt móður sinni í Frakklandi.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert