400 kíló af kókaíni í sendiráði

Lögreglan að störfum í sendiráðinu.
Lögreglan að störfum í sendiráðinu. AFP

Lögreglan lagði hald á næstum 400 kílógrömm af kókaíni í rússneska sendiráðinu í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu. Nokkrir liðsmenn í eiturlyfjahring voru handteknir, að sögn innanríkisráðherra Argentínu.

Málið komst upp eftir að rússneski sendiherrann greindi lögreglu frá málinu í desember 2016. Að sögn Patriciu Bullrich fundust eiturlyfin í viðbyggingu sendiráðsins, en í kjölfarið hóf lögreglan tálbeituaðgerð þar sem fíkniefnunum var skipt út fyrir hveiti og sendibúnaði komið fyrir í sendingunni.

Áætlað söluverðmæti fíkniefnanna er um 50 milljónir dala, eða um fimm milljarðar króna.

Bullrich sagði að glæpamennirnir hafi reynt að notfæra sér þjónustuleiðir sendiráðsins fyrir erindreka til að smygla eiturlyfjunum til Evrópu, m.a. Rússlands og Þýskalands að því er talið er.

Segir Bullrich að hinn meinti höfuðpaur smyglsins hafi verið í Þýskalandi og að búist sé við að þýska lögreglan muni handtaka hann, en argentínska lögreglan hefur einnig notið aðstoðar rússnesku lögregluna við rannsóknina.

Þegar hafa þrír verið handteknir í Rússlandi og tveir í Argentínu og var einn hinna handteknu Rússi sem starfaði hjá lögreglunni í Buenos Aires.

Talið er að kókaínið hafi upphaflega komið frá Kólumbíu eða Perú.

Fréttin hefur verið uppfærð.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert