Atkvæðagreiðslu um vopnahlé frestað

Vassily Nebenzia, rússneski sendiherrann, og MA Zhaoxu, kínverski sendiherrann, fyrir …
Vassily Nebenzia, rússneski sendiherrann, og MA Zhaoxu, kínverski sendiherrann, fyrir fund Öryggisráðsins í kvöld. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur frestað atkvæðagreiðslu um vopnahlé í Sýrlandi þar til klukkan 17 á laugardag. Ekki var komist að samkomulagi sem Rússar gátu sætt sig við.

Viðræður hafa staðið yfir frá 9. febrúar í Öryggisráðinu um ályktun um vopnahlé og á meðan hefur stjórnarher Sýrlands, með stuðningi Rússa, ráðist af hörku á austurhluta Ghouta-héraðs.

Yfir 460 manns, þar af 100 börn, hafa lát­ist á þeim sex dögum sem Sýrlandsher hefur látið sprengjum rigna yfir þegna sína á svæðinu. Rúss­ar, sem styðja og taka þátt í aðgerðum Sýr­lands­hers, hafa neit­un­ar­vald í ör­ygg­is­ráðinu. 

Særð börn eftir árásir síðustu daga.100 börn hafa látist á …
Særð börn eftir árásir síðustu daga.100 börn hafa látist á síðustu 6 dögum. AFP

„Við höfum ekki náð að loka þessu alveg,“ hefur fréttastofa AFP eftir Olof Skoog, sendiherra Svía. „Við munum vinna í kvöld og vonandi, við munum tvímælalaust koma aftur á morgun og við munum kjósa.“ 

Sýrlenska þjóðin getur ekki beðið

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna, gagnrýnir Rússa á Twitter-síðu sinni fyrir að standa í vegi fyrir því að ráðið álykti um málið. „Ótrúlegt að Rússland tefji atkvæðagreiðslu um vopnahlé sem gefur færi á mannúðaraðstoð í Sýrlandi. Hversu margir í viðbót munu láta lífið áður en Öryggisráðið samþykkir að fara í þessa atkvæðagreiðslu? Gerum þetta í kvöld. Sýrlenska þjóðin getur ekki beðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert