Þjáningar jukust á meðan beðið var

Að minnsta kosti 127 börn eru á meðal þeirra 519 …
Að minnsta kosti 127 börn eru á meðal þeirra 519 sem hafa látist í sprengjuárásum stjórnarhersveitanna sem hófust sl. sunnudag. Fjölmargir hafa særst. AFP

„Með hverri mínútunni sem öryggisráðið beið, þá jukust þjáningar fólks,“ sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, eftir að öryggisráð SÞ samþykkti í dag samhljóða ályktun þar sem þess er krafist að lagt verði á 30 daga vopnahlé í Sýrlandi.

Undanfarna viku hafa yfir 500 saklausir borgarar látið lífið í aðgerðum stjórnarhersveita gegn uppreisnarmönnum í Austur-Ghouta, sem er skammt frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands.

Í ályktuninni, sem Rússar samþykktu, kallar öryggisráðið eftir því að vopnahlé verði lagt á þegar í stað svo hægt verði að koma hjálpargögnum til íbúa og veita þeim læknishjálp. 

Talsmenn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar, sem hefur fylgst með stríðsátökunum í landinu, segja að sýrlenskar herþotur, sem njóta stuðnings Rússa, hafi gert árásir í Austur-Ghouta eftir að ályktunin var samþykkt. 

Að minnsta kosti 127 börn eru á meðal þeirra 519 sem hafa látist í sprengjuárásum stjórnarhersveitanna sem hófust sl. sunnudag. Að minnsta kosti 41 óbreyttur borgari lét lífið í dag, þar af átta börn. Rússar hafa neitað aðild að árásunum. 

Upphaflega stóð til að öryggisráð SÞ myndi greiða atkvæði um ályktunina á fimmtudag en atkvæðagreiðslunni var ítrekað frestað á meðan samningaviðræður stóðu yfir á bak við tjöldin, því unnið var að því að Rússar myndu beita neitunarvaldi því þeir styðja Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta og veita honum hernaðaraðstoð. 

Nikki Hayley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, sakar Rússa um að tefja málið. 

„Á meðan þeir drógu samningaviðræðurnar á langinn, þá héldu sprengjurnar úr vélum Assads áfram að falla. Á þessum þremur dögum sem tók okkur að samþykkja þessa ályktun, hve margar mæður hafa misst börnin sín í sprengjuárásum,“ spurði hún. 

Vassily Nebenzia, sendiherra Rússa hjá SÞ, vísaði ásökununum á bug. Hann sagði nauðsynlegt að semja um málið svo menn kæmust að samkomulagi um vopnahlé sem væri „gerlegt“.

Huga þurfti sérstaklega að orðalagi ályktunarinnar svo Rússar myndu ekki beita neitunarvaldi. Í stað þess að segja að vopnahlé myndi hefjast 72 klukkustundum eftir að ályktunin yrði samþykkt, þá var orðalagið „án tafar“ sett inn. Einnig var orðalaginu „þegar í stað“ tekið út varðandi það að hjálpargögn gætu borist til íbúa og þeir fluttir á brott. 

Þá vildu Rússar ekki samþykkja að vopnahléið myndi einnig ná til hernaðaraðgerða gegn liðsmönnum Ríkis íslams eða Al-Qaeda, auk einstaklinga, samtaka og aðilar sem tengjast hryðjuverkahópum.

Með þessu geta hersveitir Sýrlandsstjórnar haldið áfram baráttu sinni gegn hópum í Idlib sem tengjast Al-Qaeda. Svæðið er síðasta héraðið í Sýrlandi sem er ekki undir stjórn sýrlenskra yfirvalda. 

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, sést hér ræða við …
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, sést hér ræða við MA Zhaoxu, sendiherra Kína hjá SÞ, á fundi öryggisráðsins í New York. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert