Í fangelsi sakaðar um galdra

Konurnar í Bimbo-kvennafangelsinu í Bangui. Klefinn er sérstaklega ætlaður fyrir …
Konurnar í Bimbo-kvennafangelsinu í Bangui. Klefinn er sérstaklega ætlaður fyrir þær konur sem ákærðar eru fyrir galdra. AFP

Í illa lýstum klefa á milli kojurúma í kvennafangelsi í M-Afríkulýðveldinu fær trúarlegt muldur kvennanna sem klefanum deila á sig næstum dulrænt yfirbragð.

Konurnar, sem þar safnast saman í kringum nokkur trúartákn, eru í fangelsi fyrir að stunda skottulækningar og galdra. Í Bimbo-fangelsinu í höfuðborginni Bangui nota þær talnaband til að biðja æðri máttarvöld um styrk til að halda áfram.

Tæpur helmingur þeirra 42 kvenna sem eru í fangelsinu eru þar eftir að hafa verið kærðar fyrir galdra, sem telst enn til glæpa í ríkinu.

Ungur drengur í fangi móður sinnar í Bimbo-kvennafangelsinu. 47 konur …
Ungur drengur í fangi móður sinnar í Bimbo-kvennafangelsinu. 47 konur eru í fangelsinu, 20 þeirra hafa verið ákærðar fyrir galdra og 16 þeirra bíða þess að réttað verði í máli þeirra. AFP

Afsökunarbeiðnin ekki nóg

„Þeir fluttu mig hingað vegna systur minnar Ninu,“ segir Sylvie, einn fanganna, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Ég veit ekkert um verknaðinn sem ég er fangelsuð fyrir.“ Sylvie ræddi við fréttamanninn í gegnum gaddavírsgirðingu í einu horni aðalgarðs fangelsisins þar sem fangarnir útbúa máltíðir sínar, þvo þvott og gæta barna sinna.

„Eiginmaður systur minnar dó af því að hann fékk lélega heilbrigðisþjónustu og systir mín olli mér erfiðleikum í kjölfarið.“

AFP segir engan vafa leika á sakleysi Sylvie. Systir hennar hafi meira að segja komið og beðist afsökunar á því sem hún gerði, en það var ekki talið nóg. Sylvie, sem þegar hefur setið í rúmt ár í fangelsi, bíður enn eftir að mál hennar verði tekið fyrir.

Saga hennar líkist sögu margra annarra kvenna sem verða illa úti þegar dauðsfall eða veikindi verða í fjölskyldunni.

Galdrar vandmeðfarnir í lögum

Hvort sem um einlæga trú er að ræða eða illvilja veldur það mörgum konum erfiðleikum ef nágranni eða fjölskyldumeðlimur sakar þær um galdra.

„Galdrar eru alltaf vandmeðfarnir í lögum Mið-Afríku,“ segir Nadia Carine Fornel Poutou, yfirmaður samtaka kvenlögfræðinga í Bangui. Samtökin halda úti vinnustofum þar sem reynt er að ræða þetta viðkvæma mál.

Konurnar safnast saman við líkneski í klefa sínum. Yfirleitt er …
Konurnar safnast saman við líkneski í klefa sínum. Yfirleitt er það nágranni eða fjölskyldumeðlimur sem lagði fram kæruna og oft er það vegna afbrýðisemi eða til að ná fram hefndum. AFP

„Þetta er alltaf dulspekilegt, þannig að það er erfitt fyrir dómara að komast að niðurstöðu,“ segir Fornel Poutou og bætir við að erfitt og jafnvel ómögulegt sé að finna sannanir í slíkum málum.

Þegar lítið er um beinharðar sannanir duga ásakanirnar einar sér oft til þess að fella dóm. Fornel Poutou segir þennan galla á dómskerfisins gera sumu fólki kleift að misnota það til að fá útrás fyrir afbrýðisemi sína eða til að jafna stöðuna.

„Það eru alltaf þeir veikbyggðu – konur, börn og aldraðir – sem eru sakaðir um galdra,“ segir hún.

Fordæmdar af samfélaginu ef þær sleppa

Roger N'Gaka-Passi, fangelsisstjórinn í Bimbo, staðfestir að flest fórnarlambanna séu konur. „Það má finna hóp slíkra kvenna hér [...] fáar galdraákærur beinast gegn körlum.“

Mannfræðingurinn Louisa Lombard færir í bók sinni „Making Sense of CAR“ sem útleggja má sem „Að skilja Mið-Afríkulýðveldið“ að fyrirbærið kunni mega rekja til þess að konur séu komnar í beina samkeppni við karla og ögri þannig feðraveldinu.

Sylvie er heppnari en margir samfangar hennar sem sakaðir hafa verið um galdra. Eftir heimsókn og afsökunarbeiðni systur hennar, getur hún leyft sér að vona að sér verði sleppt og hún fái að snúa aftur heim.

„Almennt eiga þær konur sem sakaðar eru um galdra á hættu, jafnvel ef þær sleppa úr fangelsi, að vera hafnað af samfélagi sínu, það er ef þær sleppa við fordæmingu,“ segir Fornel Poutou og dregur fram mynd sem tekin var í Boali 2015. Myndin sýnir sundurbútað lík eldri konu sem sætti hrottalegum misþyrmingum eftir að hafa verið sökuð um galdra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert