Trump: Mun bregðast við kosningaafskiptum

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist vinna ötullega að því að hindra …
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist vinna ötullega að því að hindra frekari afskipti af kosningum í landinu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi í dag að Rússar og „önnur ríki“ hafi reynt að hafa áhrif forsetakosningarnar í Bandaríkjunum haustið 2016, er hann var kjörinn forseti.

Trump hét því að slíkt fengi ekki að gerast aftur.

„Vissulega voru afskipti, líklega frá öðrum löndum eða mögulega frá einstaklingum,“ sagði Trump á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu. Hann hefur fram að þessu ítrekað hafnað vísbendingum um að Rússar hafi haft afskipti af kosningunum og sagt um „falskar fréttir“ að ræða.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af að slíkt gerist aftur svaraði hann: „Við vinnum gegn hverju sem þeir gera. Við vinnum heilshugar gegn því,“ sagði hann. Þingkosningar verða haldnar í Bandaríkjunum síðar á þessu ári og næstu forsetakosningar verða árið 2020.

„Við höfum ekki fengið viðurkenningu fyrir það [...] en við erum að vinna mjög ötullega að undirbúningi fyrir kosningarnar 2018 og 2020.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert