Klámmyndaleikkona höfðar mál gegn Trump

Stephanie Clifford.
Stephanie Clifford. AFP

Klámmyndaleikkona hefur höfðað mál gegn forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, þar sem samkomulag sem hann lét gera við hana um að þegja um samband þeirra sé ógilt vegna þess að Trump hafi aldrei skrifað undir samkomulagið um að hún þegði um samband þeirra gegn peningagreiðslu.

Lögfræðingur hennar, Michael Avenatti, birti á Twitter í gær afrit af málsókn sem leikkonan Stormy Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, höfðaði. 

Þar kemur fram að hún hafi átt í nánu sambandi við Trump 2006-2007 sem hún ætlaði að upplýsa um á þeim tíma sem Trump var valinn forsetaframbjóðandi repúblikana. 

Í skjölunum sem birt voru á Twitter kemur fram að Trump hafi með aðstoð frá lögmanni sínum, Michael Cohen, þaggað niður í Clifford til þess að koma í veg fyrir að hún greindi frá sambandinu við Trump.

Stephanie Clifford/ Stormy Daniels.
Stephanie Clifford/ Stormy Daniels. AFP

Cohen útbjó samkomulag þar sem því er heitið að hún fái greidda 130 þúsund Bandaríkjdali frá fyrirtækinu Essential Consultants LLC ef hún þegi um sambandið við Trump. Notaði hann dulnefnin Peggy Peterson og David Dennison á samkomulagið og áttu þau Clifford og Trump að skrifa undir ásamt fulltrúa Essential Consultants.

Nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar í nóvember 2016 skrifaði Clifford undir og eins Cohen fyrir hönd Essential Consultants. En Trump skrifaði aftur á móti ekki undir og það þýðir að samkomulagið er ekki í gildi að sögn lögmanns hennar.

Cohen greindi frá því við bandaríska fjölmiðla í síðasta mánuði að hann hafi greitt Clifford 130 þúsund dali  úr eig­in vasa. „Hvorki Trump-sam­steyp­an né for­setafram­boð Trumps átti hlut í greiðslunni til frök­en Clifford, né held­ur var mér end­ur­greitt fyr­ir hana með bein­um eða óbein­um hætti,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni sem birt var í New York Times meðal annars.

CNN seg­ir að Cohen hafa stofnað einka­fyr­ir­tæki aðeins nokkr­um vik­um fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar til að halda utan um greiðsluna til Clifford. Wall Street Journal greindi frá því í janú­ar á þessu ári að Clifford hafi átt í meintu sam­bandi við Trump í júlí 2006.

Eft­ir að frétt­ir bár­ust af því að Cohen hefði greitt Clifford fyr­ir að tjá sig ekki um sam­bandið við for­set­ann, neitaði hann því í fyrstu harðlega að hún hefði átt í sam­bandi við Trump. Í kjöl­farið bár­ust ásak­an­ir um að greiðslan til Clifford hefði verið ólög­leg og dreg­in af kosn­inga­fé.

Cohen seg­ir greiðsluna hins veg­ar hafa verið lög­lega og ekki tekna af fram­boðsfénu. Spurður hvers vegna hann hafi borgað Clifford sagði Cohen við CNN: „Jafn­vel þó að eitt­hvað sé ekki satt þá þýðir það ekki að það geti ekki valdið skaða og ég mun alltaf verja Trump.“

Í janúar kom fram að Alana Evans, bandarískri klámmyndaleikkonu, hefði verið boðið inn á hótelherbergi Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, árið 2006. Sagði Evans einnig að Stephanie Clifford hefði verið boðið að vera með þeim, Evans og Trump.

Wall Street Journal greindi frá því að Clifford hefði fengið greidda 130 þúsund Bandaríkjadali í aðdraganda síðustu forsetakosninga, gegn því að hún ræddi ekki kynlífsstund sem hún hefði átt með Trump, skömmu eftir að Melania, eiginkona Trumps, eignaðist barn þeirra.

Í viðtali við vefmiðilinn Daily Beast sagði Alana Evans að hún hefði endað ein með Trump á hótelherbergi hans og að hann hefði elt hana um herbergið á nærfötum. Aðrir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa staðfest frétt Wall Street Journal.

Jessica Drake, sem einnig er klámmyndaleikkona, er einnig sögð hafa undirritað samning þar sem kveðið var á um þögn hennar. Er hún einnig í hópi fjölda kvenna sem hafa sakað forsetann um kynferðislega áreitni.

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert