Fannst látinn í bíl stjúpunnar

Gabriel Cruz fannst látinn í morgun.
Gabriel Cruz fannst látinn í morgun. AFP

Átta ára gamall spænskur drengur sem hefur verið saknað frá því í lok febrúar fannst látinn í skotti bifreiðar stjúpmóður sinnar í morgun. Hundruð lögreglumanna hefur tekið þátt í leitinni að drengnum og hefur málið haldið spænsku þjóðinni í heljargreipum.

Innanríkisráðherra Spánar, Juan Ignacio Zoido , greindi frá því nú síðdegis að lögreglan hafi stöðvað för unnustu föður Gabriel Cruz  og leitað í bifreið hennar. Fannst lík drengsins í skotti bifreiðarinnar en hún var að flytja líkið á milli staða.

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, birti áðan samúðaróskir til fjölskyldu Gabriel og vina á Twitter. Segist hann deila sorginni með spænsku þjóðinni sem syrgja Gabriel. 

Gabriel Cruz Ramirez sást síðast á lífi þriðjudaginn 27. febrúar þegar hann fór frá heimili ömmu sinnar í þorpinu Las Hortichuelas, skammt fyrir utan bæinn Níjar í Almería-héraði. Hann ætlaði að fara heim til vinar sín og leika við hann en sneri aldrei aftur heim. 

El País

Samkvæmt frétt El País var unnusta föður Gabriel, Ana Julia Quezada, handtekinn eftir að lík drengsins fannst í bílnum en för hennar var stöðvuð í La Puebla de Vícar, sem er 43 km frá Níjar þar sem hann hvarf. Samkvæmt heimildum El País hafði hún falið líkið í brunni þar sem hún óttaðist að það fyndist þar.

Unnustan, sem er 35 ára, hefur allan tímann frá því Gabriel hvarf staðið þétt við hlið föður hans og ítrekað sagt hversu miður sín hún sé vegna hvarfsins. 

Einu ummerkin sem höfðu fundist um drenginn var stuttermabolur sem talið var að Gabriel hafi verið klæddur þegar hann týndist. Bolurinn fannst 4 km frá þeim stað sem hann sást síðast. Á sömu slóðum og Quezada hafði verið á þegar hann hvarf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert