Hnífamaður skotinn til bana í Vín

AFP

Tuttugu og sex ára gamall karlmaður var skotinn til bana fyrir utan aðsetur sendiherra Írans í Vín, höfuðborg Austurríkis, eftir að hann hafði ráðist með hnífi á hermann, sem var á verði við húsið. Maðurinn réðist til atlögu um klukkan ellefu í gærkvöldi.

Fram kemur í frétt AFP að árásarmaðurinn hafi verið Austurríkismaður af egypskum uppruna og að hann hafi látist á staðnum eftir að vörðurinn hafi skotið á hann.  Húsleit var í kjölfarið gerð á heimili árásarmannsins til þess að varpa ljósi á tilefnið.

Haft er eftir Harald Soeros, talsmanni lögreglunnar í Vín, að ekki hafi verið útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Til átaka kom á milli árásarmannsins og hermannsins á meðan á árásinni stóð og stakk árásarmaðurinn hermanninn nokkrum sinnum. Skothelt vesti hermannsins er talið hafa bjargað lífi hana. 

Hermaðurinn reyndi fyrst að nota piparúða á árásarmanninn en greip síðan til skammbyssu sinnar og skaut allavega fjórum skotum að sögn Soeros.

Hermaðurinn slapp með minniháttar meiðsli. Hann hlaut sár á upphandlegg sem gert var að á sjúkrahúsi. Þá fékk hann einnig áfallahjálp.

Varakanslari Austurríkis, Heinz-Christian Strache, sagði hermanninn hafa skotið í sjálfsvörn og gert það sem þurft hefði til þess að bjarga eigin lífi.

Lögreglan hefur fyrirskipað aukna öryggisgæslu í kringum sendiráð í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert