Rússneskur kaupsýslumaður fannst látinn í London

Frá rannsókn lögreglunnar í London á taugaeiturárásinni sem átti sér …
Frá rannsókn lögreglunnar í London á taugaeiturárásinni sem átti sér stað 4. mars. AFP

Rússinn Nikolai Glushkov fannst látinn á heimili sínu í London í gær. Glushkov, sem var 68 ára gamall, var náinn vinur auðjöfursins og stjórnarandstæðingsins Boris Berezovsky sem átti í miklum deilum við Valdimír Pútín og Roman Abramovich, eiganda knattspyrnuliðsins Chelsea. Berezovsky flúði til Bretlands þar sem hann lést árið 2013. Glushkov hefur alla tíð haldið því fram að vinur hans hafi verið myrtur.

Glushkov sótti um pólitískt hæli í Bretlandi árið 2004 og hefur dvalið þar síðan. Fjölskylda hans kom að honum látnum á heimili hans í gærkvöldi. Dánarorsök eru ekki kunn.

Glushkov var dæmdur fyrir peningaþvætti og svik í kjölfar deilna Berezovsky við Pútín og Abramovich og sat hann í fangelsi á árunum 1999-2004.

Dauði Glushkovs kemur upp í miðri atburðarás í umdeildu máli, eit­ur­efna­árás á rúss­neska gagnnjósn­ar­ann Ser­gei Skripal og dótt­ur hans, Yuliu. Bresk stjórnvöld segj­ast ekki ætla að sætta sig við slíkt til­ræði á breskri grund og telja vís­bend­ing­ar um að efnið sé frá Rúss­um komið. Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið hafa tekið und­ir þær kenn­ing­ar.

Ekki hefur verið gefið út hvort málin tengjast með beinum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert