Hönnuður brúarinnar varaði við sprungum

Göngubrúin hrundi á fimmtudag. Hreinsunarstarf á vettvangi stendur enn yfir.
Göngubrúin hrundi á fimmtudag. Hreinsunarstarf á vettvangi stendur enn yfir. AFP

Verkfræðingur sem kom að hönnun göngubrúarinnar í Miami sem hrundi í fyrradag hafði samband við stjórnvöld og lét vita um sprungur í brúnni, tveimur dögum áður en hún hrundi.

Að minnsta kosti sex létust þegar brúin, sem vó tæplega 900 tonn, féll á fimmtudag. Brúin sem var nýlega tekin í notkun tengir saman háskólabyggingu Florida International University og stúdentagarða við skólann og liggur yfir átta akgreina hraðbraut. Átta bílar krömdust undir brúnni. Enn er verið að reyna að komast að þeim látnu sem sitja fastir í rústunum.

Frétt mbl.is: Gefa upp von um að finna fólk á lífi

Verkfræðingurinn Denney Pate skildi eftir skilaboð á símsvara samgöngudeildar Flórída-ríkis á þriðjudag. Þrír dagar liðu áður en hlustað var á skilaboðin.

Í upptökunni, sem birtis í Miami Herald og má hlusta á heild sinni hér að neðan, kemur fram að sprungur hafi fundist í norðurhluta brúarinnar.

„Við erum búin að kíkja á þær en augljóslega þurfa einhverjar viðgerðir að fara fram, en út frá öryggissjónarmiðum teljum við að ekki sé um vandamál að ræða,“ segir Pate meðal annars.

Ástæða þess að skilaboðin náðu ekki til eyrna starfsmanna samgöngudeildarinnar er sú að þau voru í gegnum jarðlínu og hafi starfsmaður deildarinnar ekki hlustað á þau fyrr en þremur dögum seinna, daginn eftir að brúin féll.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sem rannsakar slysið, hefur fullyrt að þó svo að sprungur hafi fundist í brúnni sé ekki hægt að rekja orsök hrunsins beint til þeirra, að minnsta kosti ekki að svo stöddu.

Hér má sjá þegar brúin hrundi: 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert