Eldur í rútu við Stansted

Hluti flugstöðvarbyggingarinnar var rýmdur á meðan slökkvilið og lögregla athöfnuðu …
Hluti flugstöðvarbyggingarinnar var rýmdur á meðan slökkvilið og lögregla athöfnuðu sig. Kort/Google

Rýma þurfti hluta Stansted-flugvallar í London í Bretlandi eftir að eldur kviknaði í rútu sem stóð fyrir utan bygginguna. 

Forsvarsmenn vallarins birtu færslu á Twitter kl. 16:40 að staðartíma, kl. 15:40, um að unnið væri að rýmingu vegna flugvallarskutlu sem stæði í ljósum logum fyrir utan bygginguna. 

Tekið var fram að verið væri að rannsaka hvað gerðist. Slökkviliðið í Essex sendi fjórar stöðvar á vettvang. 

Sjónarvottur segist í samtali við BBC hafa séð þykkan svartan reyk stíga upp til himins. Hann tók enn fremur fram að menn væru rólegir. 

Forsvarsmenn Stansted sögðu í annarri færslu, sem birtist kl. 17:12 að staðartíma, að það væri búið að slökkva eldinn og unnið væri að því að koma allri starfsemi í samt horf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert