Vísuðu 59 erindrekum 23 ríkja úr landi

Rússnesk stjórnvöld ráku í dag 59 erindreka frá 23 ríkjum úr landi og áskilja sér réttinn til að grípa til frekari aðgerða gegn fjórum ríkjum til viðbótar að því er Reuters greinir frá. Hafa m.a. stjórnvöld í Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi og Danmörku greint frá því í dag að erindrekum þeirra í Rússlandi hafi verið vísað úr landi.

Í gær höfðu Rússar fyrirskipað brottrekstur 60 bandarískra erindreka og að bandarísku sendiráðsskrifstofunni í Sankti Pétursborg yrði lokað.

Samskipti Rússa við vestrænar þjóðir hafa farið síversnandi frá því að bresk stjórnvöld sökuðu Rússa um að standa að baki taugagasárás á  fyrrverandi gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í Salisbury á Englandi. Er þetta fyrsta taugagasárásin sem gerð er á evrópskri grund frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

Rússnesk yfirvöld hafna því alfarið að bera ábyrgð á árásinni, en 145 rússneskum erindrekum hefur undanfarið verið vísað úr landi af 29 ríkjum, flestum þeirra Evrópuríkjum, vegna árásarinnar. Þá hefur NATO einnig fyrirskipað að 10 rússneskir erindrekar verði reknir úr höfuðstöðvum NATO.

Rússar hafa undanfarna daga svarað í sömu mynt og voru þar til í dag að vísað sama fjölda erindreka annarra ríkja úr landi og þau sendu burt. Í dag tilkynntu rússnesk stjórnvöld hins vegar að gripið yrði til aukinna aðgerða gegn Bretum og var breskum stjórnvöldum tilkynnt að þau yrðu að fækka starfsfólki enn meira, þannig að fjöldinn í breska sendiráðinu í Rússlandi yrði sá sami og fjöldi rússneskra starfsmanna í sendiráðinu Rússlands í Bretlandi.

Segir í frétt BBC um málið að tilkynningin í dag bendi til þess að Rússar líti á bresk stjórnvöld sem forsprakka alþjóðlegs samsæris gegn sér.  

Sergei og Yulia Skripal fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury á Englandi 4. mars. Ástand Sergei Skripal er stöðugt en alvarlegt, en greint var frá því í gær að Yulia dóttir hans væri komin til meðvitundar og að hún væri á batavegi.

Bandaríska sendiráðið í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld gerðu í gær 60 …
Bandaríska sendiráðið í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld gerðu í gær 60 bandarískum erindrekum að yfirgefa landið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert