16 daga drengur fannst látinn

Rhesus-aparnir eru fyrirferðarmiklir á Indlandi.
Rhesus-aparnir eru fyrirferðarmiklir á Indlandi. AFP

16 daga gamall drengur sem indverska lögreglan hefur leitað síðan á föstudag fannst látinn í vatnsbrunni í gær.

Barnið hafði verið sofandi undir moskítóneti við heimili sitt í austurhluta ríkisins Odisha á föstudag er það var numið á brott af rhesus-apa, smávöxnum apaketti sem algengur er á Indlandi.

„Móðir barnsins segist hafa séð apann taka barnið. Hún öskraði en apinn stökk yfir húsþak og hvarf sjónum,“ sagði S.M. Baral, lögregluþjónn sem sér um rannsóknina, í samtali við AFP.

Umfangsmikil leit fór fram í þorpinu Talabasta og skóglendinu sem umkringir það en barnið fannst sem fyrr segir í vatnsbrunni. Krufning hefur leitt í kjós að barnið dó vegna köfnunar. „Þar sem engin merki um áverka voru á barninu er hugsanlegt að apinn hafi sleppt barninu ofan í brunninn.“

Að sögn fjölmiðla eru apar vaxandi vandamál í austurhluta Indlands. Í mars í fyrra var skólum í Kendrapada-sýslu lokað vegna tíðra apaárása. Í sama mánuði lést ríkisstarfsmaður úr höfuðáverka eftir að api stökk á hann úr tré.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert