„Ótrúlega hugrökk“ og mjög heppin

Rupali Meshram og móðir hennar.
Rupali Meshram og móðir hennar. Ljósmynd/Twitter

Læknar segja að indversk kona sé heppin að hafa sloppið lifandi eftir að hún varðist tígrisdýri sem hafði ráðist á geitina hennar í síðustu viku.

Hin 23 ára gamla Rupali Meshram sagði í samtali við BBC að hún hefði hlaupið út af heimili sínu þegar hún heyrði geitina öskra.

Hún tók upp prik og sló tígrisdýrið, sem síðan réðst á hana. Móðir Meshram, sem slasaðist líka í átökunum, bjargaði Meshram með því að draga hana inn í húsið.

Meiðsli mæðgnanna voru minni háttar og voru þær báðar fljótlega útskrifaðar af spítala. Geitin lifði árásina hins vegar ekki af.

Læknir sagði að Meshram væri „ótrúlega hugrökk“ en að hún væri mjög heppin að dýrið beit hana ekki. Meshram tók mynd af sér og móður sinni eftir árásina þar sem sjá má þær alblóðugar.

„Ég hélt að dóttir mín myndi deyja,“ sagði móðirin, Jijabhai, við BBC. Mæðgurnar kölluðu eftir aðstoð en þegar aðstoðin barst var tígrisdýrið á bak og burt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert