Yulia Skripal: Styrkur minn eykst daglega

Yulia Skripal segir styrk sig nú vaxa daglega, en vika …
Yulia Skripal segir styrk sig nú vaxa daglega, en vika er frá því að hún vaknaði til meðvitundar. Af Facebook

Breska lögreglan hefur sent út yfirlýsingu fyrir hönd Yuliu Skripal, dóttur rússneska gagnnjósnarans Sergei Skripal. Eru þetta fyrstu samskipti hennar við umheiminn frá því að Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury á Englandi  4. mars í kjölfar taugaeitursárásar.

„Ég vaknaði til meðvitundar fyrir rúmri viku og er ánægð að geta greint frá því að styrkur minn vex daglega,“ sagði í yfirlýsingunni sem BBC birti nokkrum klukkutímum eftir að rússnesk sjónvarpsstöð birti hljóðupptöku af meintu símtali Yuliu við frænku sína Viktoríu Skripal.

Yulia og Sergei Skripal eru enn á sjúkrahúsi í Salisbury og ástand Sergei Skripal er sagt vera  alvarlegt, en þó stöðugt.

Segir Yulia Skripal að hún sé þakklát fyrir mikinn fjölda kveðja og hlýhug sem hún hafi fundið. „Það eru margir sem ég á að þakka bata minn og ég vil sérstaklega nefna íbúa Salisbury, sem komu til hjálpar þegar ég og faðir minn vorum óvirk,“ sagði í yfirlýsingunni. „Þá vil ég einnig þakka starfsfólki héraðssjúkrahússins í Salisbury fyrir umönnun sína og fagmennsku.“

Segir hún atvikið í heild sinni enn vera frekar ruglingslegt og að hún vonist til þess að fólk virði einkalíf hennar og fjölskyldu hennar  á sjúkrabeðinum.

„Allt er í lagi núna“

Bresk stjórnvöld hafa ásakað rússnesk stjórnvöld um að standa að árásinni, en sendiherra Rússlands í Bretlandi segir rússnesk yfirvöld ekki hafa átt neinar birgðir af novochek-taugaeitrinu sem notað var í árásinni.

Í símtalinu sem rússneska Rossiya 1 ríkissjónvarpsstöðin birti í dag við hina meintu Yuliu, segir hún: „Allt er í lagi núna. Hann [faðir hennar] er að hvíla sig núna. Hann sefur. Heilsa allra er góð, ekkert óbætanlegt hefur gerst. Ég verð útskrifuð fljótlega.“

Frænkan Viktoría Skripal segist þá vonast til að ferðast fljótlega til Bretlands að heimsækja þau og svarar hin meinta Yulia því þá til að enginn muni gefa henni vegabréfsáritun.

Rússneska Interfax-fréttastofan vitnar einnig í frænkuna sem segir Yuliu hafa sagt sér að allt sé gott. Hún lýsti þó yfir undrun á því að símtalið hafi komið degi eftir að hún hafði greint fjölmiðlum frá því að henni væri meinað að tala við Yuliu.

„Trúir þú á tilviljanir? Ég geri það ekki,“ sagði Viktoría Skripal við Interfax.

Er hún sögð vera nánasti núlifandi ættingi Skripal-feðginanna eftir röð dauðsfalla í fjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert