Vara við eldflaugaárás á Sýrland

Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjoðanna fyrr í kvöld.
Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjoðanna fyrr í kvöld. AFP

Evrópska flugumferðarstjórnin Eurocontrol varar farþegaflugvélar við því að hugsanlega verði gerðar eldflaugaárásir á Sýrland á næstu þremur sólarhringum. 

Fyrr í kvöld beittu Rússar neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar greitt var atkvæði um tillögu Bandaríkjanna hvort ætti að senda óháða rann­sókn­ar­nefnd til Douma til að meta hvort um efna­vopna­árás hafi verið að ræða.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum hafa flugfélög sem fljúga í Miðausturlöndum verið vöruð við því að eldflaugaárásir á Sýrland gætu hafist á næstu klukkustundum.

Þar kemur einnig fram að herafli Breta á Kýpur sé á hreyfingu og franskar herþotur geti hafið sig fljótt til flugs.

Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að von sé á hörðum viðbrögðum …
Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að von sé á hörðum viðbrögðum Bandaríkjamanna. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti sagði í gær að von væri á hörðum viðbrögðum frá Banda­ríkj­un­um vegna árás­ar­inn­ar og að stjórn­völd íhugi að grípa til hernaðaraðgerða í Sýr­landi.  

Bandarískur herskipafloti undir stjórn flugmóðurskipsins USS Harry S. Truman hefur tekið stefnu í átt að Miðausturlöndum. Með Truman í för eru alls 7 árásarskip og mun flotinn leysa herskipaflota USS Theodore Roosevelt af hólmi, en hann lauk nýverið fjögurra mánaða leiðangri þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert