„Faðir Ameríku“ var ofan á mér

Janice Dickinson fyrir dómi í vikunni.
Janice Dickinson fyrir dómi í vikunni. AFP

„Ég féllst ekki á þetta. Þarna var „faðir Ameríku“ ofan á mér. Giftur maður, fimm barna faðir, ofan á mér. Hversu rangt er þetta? hugsaði ég með mér. Hversu innilega rangt?“

Þetta sagði fyrirsætan Janice Dickinson fyrir dómi í Norristown í Bandaríkjunum fyrir helgi en hún er ein rúmlega fjörutíu kvenna sem halda því fram að gamanleikarinn Bill Cosby hafi byrlað þeim ólyfjan og nauðgað þeim.

Dickinson notaði orðið „viðbjóðsleg“ um árásina sem mun hafa átt sér stað árið 1982, þegar fyrirsætan var 27 ára en leikarinn 45 ára. Hann stendur nú á áttræðu.

Dickinson vitnaði að hún hefði kynnst Cosby eftir að hann hringdi í umboðsmann hennar og óskaði eftir því að hitta hana og mögulega leiðbeina henni en fyrirsætan lét sig á þeim tíma dreyma um frama í leiklist og söng. Önnur kona sem vitnað hefur gegn Cosby, Heidi Thomas, kveðst hafa kynnst honum með sama hætti.

Bill Cosby við réttarhaldið.
Bill Cosby við réttarhaldið. AFP

Eftir að þau höfðu hist tvisvar bauð Cosby Dickinson til Lake Tahoe, þar sem hún fékk leiðsögn hjá tónlistarleiðbeinanda hans. Að því loknu snæddi hún með mönnunum tveimur á hótelinu sem Cosby dvaldist á. Þar byrjaði Dickinson, að því er fram kom í vitnisburði hennar, að finna fyrir tíðaverkjum. Cosby dró þá litla bláa pillu úr pússi sínu og gaf fyrirsætunni. Fljótlega á eftir varð hún ringluð og utan við sig. Tónlistarleiðbeinandinn vék þá frá borði og Cosby mælti: „Við höldum þessu samtali áfram uppi.“

Hann leysti frá sér sloppinn

Dickinson var með myndavél á sér og tók ljósmyndir af Cosby í litríkum slopp á hótelherbergi hans að tala í símann. „Skömmu eftir að ég tók myndirnar og hann sleit símtalinu, fór hann upp á mig. Hann leysti frá sér sloppinn ... ég gat mig hvergi hrært. Ég flaug ekki til Tahoe til að hafa kynmök við herra Cosby,“ sagði Dickinson fyrir dómi.

Fyrirsætan fann til í leggöngunum og tók eftir sæði milli fóta sér þegar hún vaknaði morguninn eftir. Hún segir Cosby hafa litið á hana eins og hún væri gengin af göflunum þegar hún bar þetta upp á hann. „Mig langaði að slá hann í andlitið.“

Dickinson er ein fimm kvenna sem komu fyrir dóm í vikunni að beiðni ákæruvaldsins en tilgangurinn er að sanna að Cosby hafi stundað það að eitra fyrir og misnota konur löngu áður en hann var ákærður fyrir að brjóta gegn Andreu Constand á heimili hans í Fíladelfíu árið 2004. Leikarinn heldur því fram að hann hafi haft mök við Constand með hennar vilja og kviðdómur klofnaði við fyrsta réttarhaldið. Sjálf mun Constand stíga í vitnastúkuna síðar í réttarhaldinu.

Verjendur Cosbys vísa framburði kvennanna fimm á bug og segja að með því að kalla þær fyrir dóm sé ákæruvaldið að drepa málinu á dreif. „Þessar konur hafa sannað að þær eru hingað komnar til að styðja við bakið á systur sinni,“ sagði talsmaður leikarans við fjölmiðla fyrir utan dómhúsið. Cosby og verjendur hans hafa alltaf haldið því fram að Constand hafi leitt leikarann í gildru með það fyrir augum að féfletta hann. Í opnunarræðu sinni í vikunni fullyrti saksóknari að Cosby hefði greitt Constand 3,4 milljónir Bandaríkjadala, andvirði 337 milljóna króna, til að tryggja þagmælsku hennar.

Þurfti á tekjunum að halda

Verjendur þráspurðu Dickinson um misræmi milli þess sem hún heldur fram nú og þess sem kemur fram í endurminningum hennar sem komu út árið 2002. Þar er ekki minnst á að fyrirsætan hafi haft samfarir við Cosby, hvað þá að hann hafi nauðgað henni. Hún svaraði því til að hún hefði viljað segja allt af létta í bókinni en útgefandinn hefði hafnað því; lögfræðingar útgáfunnar myndu aldrei samþykkja að slíkar ásakanir á hendur Cosby næðu alla leið á prent. Dickinson sagði kviðdómi að hún hefði látið það yfir sig ganga af tveimur ástæðum; annars vegar þurfti hún á tekjunum af bókinni að halda og hins vegar var hún hrædd um að Cosby myndi leggja feril hennar í rúst. „Þetta er tóm steypa þarna [í bókinni]. Þetta var allt skrifað af skuggahöfundum. Ég vildi bara ávísunina.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert