Lífið gengur sinn vanagang

Lífið í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, er farið að ganga sinn vanagang, að minnsta kosti um tíma, degi eftir að árásir voru gerðar á efna­verk­smiðjur og rann­sókn­ar­stof­ur í Sýr­landi.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi eru á bakvið árásirnar sem gerðar voru í kjöl­far efna­vopna­árás­ar á bæ­inn Douma í Aust­ur-Ghouta fyr­ir viku.

Viðmælandi AFP-fréttastofunnar á markaði í höfuðborginni segir að fáir íbúar borgarinnar hafi fundið fyrir árásinni. Engar fréttir hafa borist af mannfalli í árásinni. 

Kaupmaður sem rekur fataverslun á markaðnum segir að árásin hafi engin áhrif á íbúana. „Við höfum verið í þessari stöðu í sjö ár. Þeir halda áfram að ráðast á okkur en það hefur ekki áhrif á störf okkar. Við erum orðin vön þessu,“ segir Youssef Katramiz, kaupmaður. 

Bash­ar al-Assad Sýr­lands­for­seti hefur sagt að árás Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands hafi einungis haft þau áhrif að sýrlensk stjórnvöld muni verða ákveðnari í aðgerðum sínum hér eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert