Greiðir stjórnvöldum 5 milljónir dala

Hjólreiðakappinn Lance Armstrong samþykkti í dag að greiða bandarísku alríkisstjórninni 5 milljónir dala, eða rúmar 500 milljónir íslenskra króna, fyrir að hafa notað ólögleg lyf til að bæta árangur sinn á sama tíma og hjólreiðalið hans naut stuðnings frá bandarísku póstþjónustunni, USPS.

Þetta hefur New York Times eftir lögfræðingi Armstrong, Elliot Peters. Dómsáttin bindur enda á margra ára langar lagadeilur á milli Armstrong og yfirvalda í Bandaríkjunum, sem snerust um það hvort lyfjahneyksli hjólreiðakappans hefði skaðað ímynd póstþjónustuna, sem sagði árið 2013 að hún hefði ekki stutt hjólreiðaliðið um rúmar 32 milljónir bandaríkjadala ef vitað hefði verið að Armstrong neytti ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn.

Armstrong játaði árið 2013 að hafa notað ólögleg lyf er hann vann alls sjö Tour de France keppnir á árunum 1999 til 2005. Í fyrstu sex skiptin af þessum sjö klæddist hann treyju sem var merkt bandarísku póstþjónustunni.

Bandaríska alríkisstjórnin fór fram á allt að 100 milljónir dala vegna málsins. Réttarhöld áttu að hefjast formlega með vali á kviðdómi í Washington á næstu tveimur vikum.

Í yfirlýsingu frá lögfræðiteymi hjólreiðakappans segir að Lance Armstrong sé „hæstánægður“ með að málinu sé lokið.

Frétt NYT í heild sinni.

Armstrong greiðir alríkinu 5 milljónir dala í dómsátt vegna málsins.
Armstrong greiðir alríkinu 5 milljónir dala í dómsátt vegna málsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert