Trump ekki við jarðarförina

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti verður ekki viðstaddur jarðarför Barböru Bush, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna, sem fram fer á morgun.

Talsmaður Hvíta hússins sagði í dag að forsetinn vildi forðast að trufla athöfnina með aukinni öryggisgæslu og af virðingu fyrir Bush-fjölskyldunni.

Hins vegar verður Melania Trump forsetafrú viðstödd sem fulltrúi forsetafjölskyldunnar samkvæmt upplýsingum frá forsetaskrifstofunni.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að Trump hafi talað fallega um forsetafrúna fyrrverandi á blaðamannafundi á miðvikudaginn.

Samskipti forsetans við Bush-fjölskylduna hefðu hins vegar verið erfið. Ekki síst þar sem hann hefði tekist á við Jeb Bush í forkosningum repúblikana árið 2016.

Þá hafi bæði George Bush eldri og yngri, faðir og bróðir Jebs Bush sem voru forsetar á undan Trump, lent í árekstrum við forsetann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert