Fagna ákvörðun Norður-Kóreu

Leiðtogar Kína, Japans, Suður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa fagnað ákvörðun Norður-Kóreu um að hætta kjarnorkutilraunum sínum.

„Við fögnum þessu sem skrefi þar sem horft er fram á við […] en mikilvægt er að hafa í huga hvort það leiði til þess að þróun eldflauga og kjarnavopna verði algjörlega hætt þannig að ekki verði snúið aftur á sömu braut,“ sagði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.

„Við munum fylgjast vandlega með gangi mála.“

Suður-Kóreumenn sögðust einnig fagna ákvörðuninni. „Ákvörðun Norður-Kóreu er mikilvægur áfangi í kjarnaafvopnun á Kóreuskaganum, sem heimsbyggðin hefur vonast eftir,“ sagði í yfirlýsingu frá suðurkóreska forsetaembættinu.

Bætt var við að ákvörðunin búi til jákvætt andrúmsloft fyrir komandi viðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Shinzo Abe og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Shinzo Abe og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Kínverjar voru einnig ánægðir með gang mála. „Kína telur að ákvörðunin um að hætta kjarnorkutilraunum og að einbeita sér að bættum efnahag til að auka lífsgæði almennings muni auðvelda stöðuna á Kóreuskaganum og aðstoða við kjarnaafvopnun og tilraunir til að ná pólitískri sátt,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins í yfirlýsingu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði áður sagt tíðindin vera góð fyrir heimsbyggðina.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert