Fara betur með gæludýrin

„Gæludýr fá jafnvel betri meðferð,“ segir sautján ára gömul  marokkósk stúlka, Fatima, en hún er ein þúsunda ungra stúlkna sem eru misnotaðar og beittar ofbeldi þegar þær starfa sem heimilishjálp hjá ófyrirleitnum einstaklingum og fjölskyldum.

Fatima flúði í Annajda kvennaathvarfið í höfuðborg Marokkó, Rabat. Hún hefur unnið sem húshjálp í tvö ár en hún kemur úr bláfátækri fjölskyldu. Foreldrar hennar samþykktu að hún færi að heiman þegar hún var 15 ára til þess að starfa hjá fjölskyldu í Rabat. 

„Í fyrsta var komið vel fram við mig. En smám saman varð ofbeldi hluti af daglegu lífi mínu. Húsmóðirin barði mig, móðgaði mig og fann sér alltaf einhverja ástæðu til þess,“ segir Fatima í viðtali við AFP fréttastofuna.

Fatima El Maghnaoui sem rekur Annajada-athvarfið segir að ungum stúlkum sé haldið í ánauð og unglingar eins og Fatima eigi að vera í skóla. „Þetta er ákveðin tegund af þrælahaldi og brot á réttindum til náms og alþjóðlegum skuldbindingum Marokkó.“

Engar opinberar tölur liggja fyrir um hversu margar stúlkur starfa sem húshjálp en í rannsókn sem gerð var árið 2010 kom fram að á milli 66-80 þúsund börn yngri en 15 ára væru á vinnumarkaði.

Ekki er langt síðan saga Latifa var birt opinberlega en hún var flutt á sjúkrahús í Casablanca með þriðja stigs brunasár og brotin bein. Latifa, sem er 22 ára, hafði starfað sem húshjálp frá því á unglingsárum og hafði ítrekað verið beitt ofbeldi og misnotkun.

Vinnudagur Fatimu var langur eða frá því sjö á morgnana og langt fram eftir nóttu, jafnvel til 3 að nóttu. „Ég var vön því að sofa úti á palli í kuldanum líkt og hvert annað húsdýr. Ég fékk matarleifar að borða og mig verkjaði í fæturna þegar ég stóð upp,“ segir Fatima sem fékk jafnvel ekki greitt fyrir vinnuna.

Engin laun og vissi ekki einu sinni heimilisfangið

Hún segir að samið hafi verið um að hún fengi 700 dirhams á mánuði en það svarar til 8.500 króna eða þriðjungi af lágmarkslaunum í Marokkó. En hún fékk aldrei útborgað. Eftir ár óskaði hún eftir að fá greitt það sem hún ætti inni. Það kostaði hana það að henni var bannað að hafa samband við fjölskyldu sína og eins voru persónuskilríki hennar tekin.

Föst í gildru á heimilinu þar sem hún starfaði ákvað Fatima að flýja. „Ég þekkti engan, ég átti enga peninga og vissi jafnvel ekki heimilisfangið þar sem ég starfaði,“ segir hún. En ungur maður sem bjó í nágrenninu aðstoðaði hana við að komast í samband við aðra konu sem gat veitt ekki aðstoð.

Omar Saadoun, sem stýrir verkefni á vegum INSAF sem miðar að því að uppræta barnaþrælkun, segir að örlög stúlkna eins og Fatimu ráðist oft strax í barnæsku. Þær eiga í erfiðleikum í skóla, búa við sára fátækt og fáfræði. Á sumum svæðum eru stúlkur jafnvel álitnar lægra settar en drengir og vegna fátæktar eru þær annað hvort gefnar í hjónaband eða sendar í burtu til þess að sinna þjónustustörfum.

Þrátt fyrir nýja löggjöf sem bannar barnaþrælkun þá eru stúlkur allt niður í átta eða níu ára ráðnar til þjónustustarfa. Ein þeirra Hayat, sem er 38 ára í dag, hóf störf sem húshjálp þegar hún var níu ára gömul. „Þegar ég hugsa til baka í dag, 30 árum síðar, þá er það enn jafn sársaukafullt.“ „Ég glataði barnæskunni,“ segir Hayta. 

Fyrsti vinnuveitandi hennar fór illa með hana, hún fékk aðeins matarleifar að borða og hann niðurlægði hana stöðugt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert