Margir minntust Barböru Bush

Fjölmenni kom saman til að vera við útför Barböru Bush, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna, en hún fór fram í Texas. Margir minntust hennar af hlýhug og gleði. Barbara Bush var eiginkona George H.W. Bush og móðir George W. Bush, en feðgarnir eru báðir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna. 

Bush andaðist á heimili sínu á þriðjudag, 92 ára að aldri. 

Hún var forsetafrú Bandaríkjanna frá 1989 til 1993. Hún hafði verið heilsuveil um tíma og hafði neitað að þiggja frekari læknisaðstoð. 

AFP

Um 1.500 manns voru viðstaddir athöfnina sem fór fram í St. Martins-kirkjunni í Houston. Fyrrverandi forsetar voru á meðal gesta. Athygli vakti þó að núverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var ekki viðstaddur. Hann sagði að það hefði verið gert til að koma í veg fyrir að mikil öryggisgæsla myndi trufla athöfnina, og að það hefði verið gert af virðingu fyrir fjölskyldunni, að því er segir á vef BBC.

Samskipti Trump við Bush-fjölskylduna hafa verið afar stirð, þá sérstaklega í forsetakosningunum árið 2016 þar sem Jeb Bush var á meðal frambjóðenda Repúblikanaflokksins. En Trump var mjög gagnrýninn á Bush. Bush hafði sakað Trump um sýndarmennsku og furðiaði sig jafnframt á því hvers vegna konur gætu hugsað sér að kjósa hann. 

Hjónin Barbara Bush og George H.W. Bush sjást hér saman …
Hjónin Barbara Bush og George H.W. Bush sjást hér saman á hafnaboltaleik árið 2015. AFP

Jeb Bush, sem er fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, vakti þó kátínu meðal viðstaddra er hann minntist móður sinnar í kirkjunni þar sem foreldrar hans höfðu vanið komu sína í rúma sex áratugi. 

Hann sagði að hann vissi vel hvað móðir hans, sem var mikil fyrirmynd, myndi segja við hann ef hún væri á staðnum. Það væri „vertu stuttorður“ og „ekkert væl“.

Barbara Bush ásamt Díönu prinsessu í Hvíta húsinu í Washington …
Barbara Bush ásamt Díönu prinsessu í Hvíta húsinu í Washington árið 1990. AFP
Tveir fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, feðgarnir George W. Bush og George H.W. …
Tveir fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, feðgarnir George W. Bush og George H.W. Bush, sjást hér í kirkjunni í Houston í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert