Varð fyrir byssukúlu í beinni útsendingu

Átök hafa brotist út víða á milli mótmælenda og lögreglu.
Átök hafa brotist út víða á milli mótmælenda og lögreglu. AFP

Fréttamaður í Níkaragva var skotinn til bana er hann var í beinni útsendingu á Facebook að fjalla um mótmæli gegn stjórnvöldum.

Ángel Gahona var að segja frá skemmdum sem voru unnar á banka í bænum Bluefields við Karíbahafið þegar byssukúla hæfði hann. Myndskeið hafa birst þar sem hann sést falla blóðugur niður, að því er segir á vef BBC.

Atvikið átti sér stað á föstudag. Gahona var að greina áhorfendum frá þeim skemmdum sem höfðu verið gerðar þegar skothvellur heyrist. Hann sést síðan falla á sama tíma og fólk byrjar að öskra nafn hans og hjálpa honum. Ekki liggur fyrir hver skaut hann og hvers vegna. 

Yfir 10 hafa látist í mótmælum sem hafa staðið yfir í landinu undanfarna daga, en verið er að mótmæla breytingum sem hafa verið gerðar á lífeyriskerfinu sem Daniel Ortega, forseti landsins, staðfesti á miðvikudag.

AFP

Breytingin hefur það í för með sér að lífeyrir fyrir verkafólk og starfsmenn dregst saman um 5%. 

Ortega hefur boðist til að ræða við mótmælendur, en leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa afþakkað því fyrst verði að stöðva allt ofbeldi lögreglunnar gagnvart almenningi. 

Skemmdir hafa verið unnar á opinberum byggingum, m.a. lagður eldur að þeim. Þá er búið að senda hermenn til nokkurra borgar þar sem ástandið hefur verið verst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert