Bókin selst í 600.000 eintökum

AFP

Bók James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, um samskipti hans við Donald Trump Bandaríkjaforseta seldist í 600 þúsund eintökum fyrstu vikuna eftir að hún fór í sölu. Þetta upplýsti útgefandi bókarinnar í dag.

Bókin var sett í sölu á þriðjudaginn í síðustu viku en hennar hafði verið beðið með eftirvæntingu að því er fram kemur í frétt AFP. Rúmlega ein milljón eintaka af bókinni hefur verið prentuð en hún er bæði á boðstólum innbundin og sem rafbók.

Þrátt fyrir góða sölu er bók Comeys, A Higher Loyalty: Truth, Lies and Leadership, ekki sú söluhæsta á árinu en bók bandaríska blaðamannsins Michaels Wolff, Fire and Fury: Inside the Trump White House, seldist í einni milljón eintaka fyrstu vikuna í sölu.

Bók Wolffs hefur til þessa selst í tveimur milljónum eintaka. Comey ræðir í bók sinni um feril sinn sem saksóknari og síðar háttsettur embættismaður í dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og hugmyndir sínar um siðferðislega forystu sem og samskiptin við Trump.

Comey lýsir Trump sem óheiðarlegum og sjálfhverfum. Líkir hann vinnubrögðum forsetans, ekki síst kröfu hans um hollustu, við vinnubrögð mafíuforingja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert