Vilja nýjan samning við Íran

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, og Donald Trump Bandaríkjaforseti kölluðu eftir því í dag að gerður yrði nýr samningur við stjórnvöld í Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins. Trump hefur sagt að núverandi samningur sé galinn.

„Ég get sagt að við áttum mjög hreinskilið samtal um þetta, bara við tveir,“ sagði Macron á blaðamannafundi með Trump við hlið sér. „Við viljum fyrir vikið vinna héðan í frá að nýjum samningi við Íran.“

Bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu hafa ítrekað reynt að fá hann til þess að gefa ekki núgildandi samning frá 2015 upp á bátinn, en samkvæmt honum var slakað á viðskiptaþvingunum gegn Íran og gefið grænt ljós á borgaralega notkun kjarnorku í staðinn fyrir að hætt yrði tilraunum til þess að framleiða kjarnorkuvopn.

Vill samning reistan á traustum undirstöðum

Trump hefur frest til 12. maí til þess að ákveða örlög samningsins, en hann hefur krafist breytinga á samningnum sem margir evrópskir forystumenn telja að færu gegn alþjóðalögum. 

„Ég held að við munum hafa frábært tækifæri til þess að gera hugsanlega miklu stærri samning,“ sagði Trump og bætti við að nýr samningur yrði að vera reistur á traustum undirstöðum. Núverandi samningur væri hins vegar reistur á fúnum stoðum.

Spurður hvað hann ætti við með nýjum samningi sagði Macron að ekki væri endilega um það að ræða að fara frá einum samningi til annars. Nýr samningur yrði að innihalda þrjú ný atriði; eldflaugaáætlun Írans, áhrif landsins í Mið-Austurlöndum og hvað tæki við árið 2025 þegar írönskum stjórnvöldum verður heimilt að hefja á ný kjarnorkuvopnaáætlun sína samkvæmt gildandi samningi.

Macron sagði samninginn frá 2015 aðeins vörðu á leiðinni að stærri samningi. 

Forsetarnir Donald Trump og Emmanuel Macron heilsast fyrir utan Hvíta …
Forsetarnir Donald Trump og Emmanuel Macron heilsast fyrir utan Hvíta húsið í Washington. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert