Offita breskra barna „þjóðaröryggismál“

Kokkarnir Jamie Oliver og Hugh Fernley-Whittingstall ræða við fjölmiðla fyrir …
Kokkarnir Jamie Oliver og Hugh Fernley-Whittingstall ræða við fjölmiðla fyrir utan þingið í Lundúnum í dag. AFP

Stjörnukokkurinn Jamie Oliver kom fyrir lýðheilsunefnd í neðri deild breska þingsins í dag og hvatti þingmenn og ráðherra til að skera upp herör gegn offitu barna. Hann lýsti offitu á meðal breskra ungmenna sem hörmungarfaraldri og „þjóðaröryggismáli“ þar sem vandinn leiði til ótímabærra andláta og kallar eftir því að reglum um auglýsingar verði breytt til þess að hemja flæði auglýsinga um saltar, feitaðar og sykraðar vörur, sem beinist að börnum.

Í Bretlandi er bannað að auglýsa ruslfæði í sjónvarpi fyrir klukkan 18 á daginn, en Oliver sagði börn horfa á fjölskylduþætti mun lengur en það. Hann benti á að 1,2 milljónir breskra barna hefðu horft á skemmtiþáttinn X-Factor í síðustu viku.

„Ef þau horfa á heila þáttaröð af því, þá eru þau búin að horfa á heila kvikmynd um ruslfæði í auglýsingahléunum,“ sagði Oliver og minntist einnig á auglýsingar til barna í gegnum símaforrit.

Oliver og Fearnley-Whittingstall mótmæla auglýsingum á ruslfæði í sjónvarpi.
Oliver og Fearnley-Whittingstall mótmæla auglýsingum á ruslfæði í sjónvarpi. AFP

„Að markaðssetja beint til barna er rangt í mínum huga,“ sagði matreiðslumaðurinn Oliver, sem kom fyrir þingnefndina ásamt kollega sínum Hugh Fearnley-Whittingstall, sem hefur verið með þætti á BBC sem fjalla um baráttu Breta gegn offitu.

Áður hafði Oliver sett saman opið bréf til Theresu May forsætisráðherra um málefnið, sem stjórnarandstöðuleiðtogar í Bretlandi rituðu nafn sitt undir. Þar var þess m.a. krafist að „tveir fyrir einn“ tilboð á ruslfæði yrðu gerð ólögleg. 

Fearnley-Whittingstall lýsti því sem svo fyrir nefndinni í dag að það væri „snjóflóð af ruslfæðisauglýsingum“ sem lendi á neytendum og að það væri „vopnakapphlaup á milli stóru matvælaframleiðendanna“ sem berjist um athygli neytenda, en á endanum séu það neytendur sem tapi.

Frétt Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert