Trump tekur ákvörðun á morgun

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst tilkynna um ákvörðun sína um framtíð …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst tilkynna um ákvörðun sína um framtíð kjarnorkusamkomulags við Íran á morgun. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ætla að tilkynna á morgun hvað hann hyggst gera varðandi aðild Bandaríkjanna að kjarnorkusamkomulagi við Íran.

Samkomulagið var gert árið 2015 milli sexveldanna svonefndu, þ.e. Bandaríkjanna, Bretlands, Rússlands, Frakklands, Kína og Þýskalands, og Írans og fól það í sér að Íran­ar hægðu á kjarn­orku­tilraun­um sín­um og minnkuðu birgðir af auðguðu úrani, en í staðinn yrði refsiaðgerðum og viðskiptaþving­un­um gegn þeim aflétt.

Trump hefur ítrekað hótað að Bandaríkin muni draga sig út úr samkomulaginu og hefur hann frest til 12. maí til að tilkynna hvort Bandaríkin muni styðja samkomulagið áfram eða ekki.

Forsetinn sagði á Twitter í dag að hann muni tilkynna ákvörðun sína á morgun í Hvíta húsinu klukkan tvö að staðartíma, eða klukkan sex annað kvöld að íslenskum tíma.

Tilkynning Trumps um að ákvörðunin sé yfirvofandi hefur haft þau áhrif að heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur hækkað og fór verð á tunnu af hráolíu yfir 70 dollara í dag. Það gerðist síðast í nóvember 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert