Ætlaði losa dóttur sína við illa anda

„Nei þýðir nei“ stendur á þessu skilti mótmælanda vegna dómsins …
„Nei þýðir nei“ stendur á þessu skilti mótmælanda vegna dómsins yfir fimmmenningunum í Pamplona. AFP

Karlmaður á Spáni hefur verið ákærður fyrir að nauðga 15 ára dóttur sinni og tveimur vinkonum hennar eftir að hafa fullyrt að hann yrði að losa þær við illa anda.

Maðurinn er nefndur Javier G D í spænskum fjölmiðlum og segir BBC saksóknara í málinu fara fram á 45 ára fangelsisdóm yfir Javier. Er hann sagður hafa nauðgað stúlkunum ítrekað á heimili sínu í Baix Llobregat, í nágrenni Barcelona. Er eiginkona hans sögð hafa lagt á ráðin með honum um nauðganirnar og er því farið fram á níu ára fangelsisdóm yfir henni.

Maðurinn fullyrti að hann tilheyrði „Reglu Óðins“ sem krefðist þess að hann nauðgaði stúlkunum, annars yrðu ættingjar þeirra fyrir bölvun,“ að því er segir í ákærunni.

Réttarhöld í málinu hefjast í Barcelona á fimmtudag.

Stutt er síðan spænskur dómstóll sýknaði fimm menn af nauðgunarákæru vegna árásar á unga konu á nautahátíðinni í Pamplona. Fengu mennirnir allir vægari dóma vegna kynferðisbrota, en málið hefur vakið mikla reiði á Spáni og hefur fjöldi kvenna í kjölfarið tjáð sig á samfélagsmiðlum um misnotkun sem þær hafi orðið fyrir af hendi karlmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert