Grýttu bargesti

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fjöldi eftirlitsbifreiða lögreglunnar í Ósló brást við útkalli í Tøyen-hverfinu í gærkvöldi þar sem tilkynnt var um hóp unglinga sem grýtti gesti öldurhúss nokkurs með hvoru tveggja, grjóti og appelsínum.

„Við þurftum að taka þá lögreglutökum, stemmningin þarna var ekki góð. Þessu lauk með því að við þurftum að færa einn fjórtán ára gamlan á stöðina,“ sagði Christian Krohn Engeseth, aðgerðastjóri lögreglunnar á staðnum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Marita Aune, innivarðstjóri hjá lögreglunni í Ósló, ræddi við mbl.is í dag og sagði lögregluna alltaf taka því af alvöru þegar ungmenni sýndu af sér ofbeldishegðun í borginni. „Ég var ekki sjálf þarna á staðnum, ég er alltaf inni á stöð, en við þurftum að handtaka einn þarna í gær og kalla til foreldra og barnaverndarnefnd og það lítum við alvarlegum augum. Fólk þarna í nágrenninu var dauðhrætt,“ sagði Aune í samtali við fréttavefinn.

Telja rapptónlist hafa neikvæð áhrif á unglinga

Ofbeldisalda í Ósló síðustu misseri hefur ratað töluvert í fjölmiðla sem hafa rætt við ýmsa sérfræðinga og freistað þess að leita skýringa á óöldinni. Einn þeirra er Ragnhild Bjørnebekk, rannsakandi við Lögregluháskólann í Ósló, sem dagblaðið VG ræddi við í dag, en Bjørnebekk hefur rannsakað beitingu ofbeldis meðal ungmenna og bendir á nýjan sökudólg í málinu: rapptónlist.

„Þegar við erum að tala um vandræðahópa sem skirrast ekki við að beita ofbeldi sér maður þessi „gangstera-rappmyndbönd“ sífellt koma fyrir. Þetta getur leitt til lærðrar hegðunar hjá þessum hópum, sérstaklega þegar ofbeldi sést beitt í myndböndunum,“ segir Bjørnebekk við VG og bætir því við að hún þekki vel til málsins, enda hafi hún tekið viðtöl við fjölda ungmenna á refilstigu.

Að lokum bendir Bjørnebekk á sálfræðirannsóknina og ritgerðina „How Fantasy Becomes Reality: Seeing Through Media Influence“ sem bandaríski félagssálfræðingurinn Karen E. Dill framkvæmdi og leiddi í ljós hvernig ungmenni gera ofbeldi sem þau upplifa í afþreyingarmiðlum að sínum eigin raunveruleika. Þetta sé orðið eitt helsta áhyggjuefnið þegar kemur að áhyggjum skóla- og löggæsluyfirvalda af ungmennum í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert