Stjórnvöld í Litháen og Rúmeníu brutu gegn Mannréttindasáttmála Evrópu á ýmsan hátt og eru samsek bandarísku leyniþjónustunni í málum tengdum meintum hryðjuverkamönnum sem var haldið í leynifangelsum í ríkjunum tveimur. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu.
Mál tveggja manna sem er haldið í fangabúðum bandarískra yfirvalda við Guantánamo-flóa á Kúbu var tekið fyrir hjá Mannréttindadómstólnum í dag. Mennirnir kærðu ríkin til dómstólsins árið 2011 og 2012 en að þeirra sögn var þeim haldið ólöglega í leynifangelsum CIA frá 2004 til ársins 2006.
Zayn Al-Abidin Muhammad Husayn, einnig þekktur sem Abu Zubaydah, höfðaði málið gegn Litháen og Al Nashiri gegn Rúmeníu og er það niðurstaða dómstólsins að ríkin tvö hafi brotið reglur Mannréttindasáttmála Evrópu gagnvart mönnunum.
Niðurstaða dómstólsins er að Rúmenía hafi hýst leynifangelsi CIA frá því í september 2003 til nóvember 2005 en Litháen frá febrúar 2005 til mars 2006. Tvímenningunum hafi verið haldið þar og að innlend yfirvöld hafi vitað að aðbúnaður sem þeir bjuggu við í fangelsi CIA bryti gegn ákvæðum sáttmálans.
Jafnframt hafi ríkin tvö heimilað flutning þeirra í önnur fangelsi CIA og þar með gert þá berskjaldaða gegn enn verri meðferð en þeir fengu í ríkjunum tveimur.
Litháen er samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu sekt um að hafa brotið gegn þremur ákvæðum Mannréttindasáttmálans gagnvart Abu Zubaydah. Brotin varða þriðju grein sáttmálans, fimmtu, áttundu og þrettándu.
Hér er hægt að lesa reglur sáttmálans
Samkvæmt þriðju greininni skal enginn maður sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Husayn er fæddur árið 1971 og er ríkisfangslaus Palestínumaður. Honum er haldið í Guantánamo fangabúðunum á Kúbu en hann var talinn af bandarískum yfirvöldum tilheyra al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum. Hann var handtekinn í Faisalabad, Pakistan, í mars 2002.
Hann lá undir grun um að hafa tekið þátt í undirbúningi hryðjuverkanna á Bandaríkin 11. september 2011 og hafi starfað beint undir Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda. Hann var sá fyrsti í hópi þeirra sem lögð var áhersla á að fangelsa, high-value detainee (HVD), af hálfu CIA í upphafi stríðsins gegn hryðjuverkum sem forseti Bandaríkjanna, Bush, hóf í kjölfarið árásanna 2001. Hann hefur aldrei verið ákærður.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál Husayn ratar fyrir Evrópudómstól en áður hefur komið fram að honum var fyrst haldið í Taílandi áður en hann var fluttur í annað leynifangelsi CIA í Póllandi í desember 2002. Þar var honum haldið til desember 2003. Þaðan var hann fluttur með leynd til Guantánamo og þaðan til Marokkó 2004. Hann var síðar fluttur til Litháen (febrúar 2005) og haldið þar þangað til mars 2006 er hann var fluttur til Afganistan.
Fram hefur komið að hann var pyntaður af CIA og liggur fyrir framburður hans hjá sérstakri nefnd alþjóða Rauða krossins sem rannsakaði mannréttindabrot á föngum CIA frá árinu 2006.
Má þar nefna að svartur taupoki var settur yfir höfuð hans og síðan hellt yfir hann vatni svo hann næði ekki andanum. Höfuð hans slegið utan í vegg og hann sleginn í andlitið. Tónlist spiluð á hæstu stillingu á sama tíma og hann var geymdur í kassa. Neitað um mat og vistaður í ísköldum klefa án klæða.
Fram hefur komið að hann var næstum því dáinn fjórum sinnum að sögn lækna sem fylgdust með yfirheyrslum yfir honum en þær stóðu yfir mánuðum saman. Honum var jafnframt haldið í algerri einangrun mánuðum saman. Hann vissi hvorki hvar honum væri haldið né heldur hvers vegna. Einu mannlegu samskiptin voru við fangaverði og þá sem stýrðu pyntingunum.
Hann þjáist af stöðugum höfuðverkjum og hefur misst sjón auk þess að vera ofurnæmur fyrir hávaða. Hann fékk yfir 300 flogaköst á árunum 2008 til 2011 og við einhverjar yfirheyrslur missti hann annað augað.
Árið 2009 birtu helstu fjölmiðlar heims fréttir af því að Litháen væri meðal ríkja Austur-Evrópu sem hýstu leynifangelsi CIA. Þar var slíkt fangelsi í fyrrverandi reiðskóla skammt fyrir utan Vilníus. Rannsókn á vegum þingnefndar í Litháen komst að þeirri niðurstöðu að flugvélar CIA hafi lent á flugvöllum þar 2004, 2005 og 2006 og að CIA ásamt leyniþjónustu Litháen hafi rekið tvö leynifangelsi þar í landi.
Í máli Abd Al Rahim Husseyn Muhammad Al Nashiri gegn Rúmeníu var ríkið fundið sekt um að hafa brotið fjölmargar greinar Mannréttindasáttmálans. Þar á meðal grein 3,5,8 og 13.
Al Nashiri er Sádi-Arabi fæddur árið 1965. Hann er af jemenskum ættum. Hann er fangi í Guantánamo en Al Nashiri er einnig einn þeirra sem var talinn vera háttsettur innan al-Qaeda (HVD).
Hann var handtekinn í Dubai í október 2002. Hann er einkum ákærður fyrir að hafa gert árás á bandaríska herskipið USS Cole í Aden-höfn árið 2000 og franska olíuskipið MV Limburg í Adenflóa árið 2002. Hann var ákærður af saksóknara bandaríkjahers árið 2011 fyrir aðild að árásunum.
Fram hefur komið að Al Nashiri hafi verið fyrst haldið í leynifangelsum CIA í Afganistan og Taílandi áður en hann var fluttur í leynifangelsi CIA í Póllandi í desember 2002. Þar var honum haldið þangað til í júní 2003. Næstu þrjú árin var hann fluttur með leynd í fimm leynifangelsi CIA, þar á meðal Rúmeníu þar sem honum var haldið frá apríl 2004 þangað til október/nóvember 2005. Hann var að lokum færður í Guantánamo búðirnar í september 2006.
Líkt og Husayn var hann pyntaður á marga vegu í haldi CIA. Má þar nefna að vera hengdur upp á löppunum og látinn hanga á hvolfi meira og minna í mánuð. Vatnsbretti hafi verið beitt við pyntingarnar, látinn standa í boxi í viku, sleginn ítrekað utan í vegg og látinn búa við ítrekað ofbeldi andlegt og líkamlegt. Má þar nefna einangrun mánuðum saman og án vitneskju um hvers vegna hann væri í haldi og hvar hann væri.
Árið 2004, þegar hann hafði verið í hungurverkfalli um tíma í leynifangelsi í Búkarest, þvinguðu kvalarar hans í hann næringu í gegnum slöngu og árið 2005 var hann á mörkum þess að fá taugaáfall. Í skýrslu geðlæknis sem gefin var út árið 2013 kemur fram að hann þjáist af áfallastreituröskun.
Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands felur það í sér að viðkomandi sýni einkenni eftir að hafa orðið fyrir áfalli. Þessi einkenni felast meðal annars í því að: endurupplifa hinn skelfilega atburð á einhvern hátt (í vöku eða draumi). Reyna að sneiða hjá aðstæðum og deyfa hjá sjálfum sér allt sem minnir á atvikið (tilfinningalegur dofi og minnisleysi). Vera „ofurviðbrigðin”, svo sem að þjást af svefntruflunum, einbeitingarerfiðleikum, reiðiköstum eða að hrökkva í kút af minnsta tilefni.
Í nóvember 2005 fjallaði Washington Post um leynifangelsi CIA í Austur-Evrópu og síðar kom í ljós að rúmensk yfirvöld hafi lokað leynifangelsinu þar aðeins nokkrum klukkustundum eftir að fréttin birtist. Aðrir fjölmiðlar staðfestu frásögn af leynifangelsi í Rúmeníu þar sem föngum, þar á meðal Al Nashiri var haldið. Þingnefnd í Rúmeníu er enn að störfum við að rannsaka tilurð fangelsanna þar í landi.
Sjá nánar hér og hér